Mikil aukning hefur verið í útgáfu á írskum vegabréfum á fyrri helmingi þessa árs. Ástæðan er sú að umsóknir breskra ríkisborgara hafa snaraukist eftir að Bretar ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga úr Evrópusambandinu. Hafa umsóknir breskra ríkisborgara um írskt vegabréf aukist um 50% á þessu ári miðað við árið í fyrra samkvæmt tölum frá írska utanríkisráðuneytinu. Financial Times greinir frá.

Alls voru 500.000 vegabréf gefin út á fyrstu sex mánuðum ársins og ef fram fer sem horfir verða alls gefin út milljón vegabréf á þessu ári samanborið við 733.000 á síðasta ári. Voru breskir ríkisborgarar 20% þeirra sem fengu nýtt vegabréf. Hefur aukningin orðið til þess að stofnunin sem gefur vegabréfin út hefur þurft að fjölga starfsfólki.