Sérfræðingar sem koma að samrunum félaga segja það óskynsamlegt ef það verður gert skylt að endurskoða samrunareikninga þeirra. Slíkt sé til þess fallið að gera samruna bæði dýrari og tímafrekari og í einhverjum tilfellum koma í veg fyrir að þeir eigi sér stað.

„Við erum mjög stór í að aðstoða félög við samruna og í miklum meirihluta tilfella eru þetta lítil félög sem eru ekki endurskoðunarskyld. Að mínu viti er langt gengið ef það verður skyndilega nú lagaleg endurskoðunarskylda á samrunareikningum,“ segir Jónas Rafn Tómasson, lögmaður og eigandi hjá KPMG Law.

Jónas segir að í flestum tilfellum sé um „tiltekt“ innan samstæðna að ræða. Verði endurskoðun samrunareikninganna skylda, í stað þess að einföld áritun dugi, verði aukið álag á endurskoðendum og kostnaður við samruna muni rjúka upp. Guðbjörg Þorsteinsdóttir, skattalögfræðingur hjá skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte og einn eigenda félagsins, tekur í sama streng.

„Samruna fylgir alltaf yfirlýsing frá lögmanni eða endurskoðanda um að samruninn rýri ekki hagsmuni kröfuhafa. Það er bæði dýrt og tímafrekt að endurskoða reikninga félaga og því ljóst að breytingin myndi þýða mjög mikla vinnu og aukinn kostnað fyrir mjög marga, án þess að augljóst sé hvaða hagsmunum það þjóni. Tilgangurinn með ákvæðinu er að menn geti einfaldað samstæður með tiltölulega litlum kostnaði og breyting myndi þýða að slíkt væri fyrir bí. Það er algjörlega út fyrir alla skynsemi að ganga lengra en ársreikningalögin kveða á um og fara að krefjast endurskoðunar á óendurskoðunarskyldum félögum,“ segir Guðbjörg.

„Það væri óheppilegt ef stjórnvöld, sem hafa með samruna að gera, taka upp hjá sér að koma í veg fyrir að menn fái yfirstandandi samrunaferli aftur í hausinn. Flestir samrunar miða við stöðuna við áramót og fyrirliggjandi ársreikninga. Það væri bagalegt ef stjórnvöld færu skyndilega að hafna skjölum, sem menn skrifa undir í góðri trú, og stoppa með því samruna. Ef það verður raunin er að mínu viti tilefni til að endurskoða umræddar lagareglur,“ segir Jónas.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .