Upplýsingatæknifyrirtækið Þekking, sem sérhæfir  sig í rekstrarþjónustu og ráðgjöf, stendur nú á tímamótum en félagið fagnar tuttugu ára afmæli á þessu ári. Á afmælisárinu hyggst fyrirtækið ráðast í þó nokkrar skipulagsbreytingar og segir Stefán Jóhannesson, framkvæmdastjóri Þekkingar, að síðastliðið ár hafi stjórnendur fyrirtækisins unnið markvisst að því að innleiða nýja stefnu. Veigamesta breytingin í nýrri stefnu feli í sér stofnun nýs sviðs, sem fengið hefur nafnið Viðskiptaþróun og ráðgjöf. Hann segir að gert sé ráð fyrir því að hýsingarpartur fyrirtækisins muni minnka í framtíðinni og meira af þjónustunni færist „upp í skýið“.

„Þjónustuþörfin munu þó áfram vera til staðar í ráðgjöf og í því liggur sú endurmörkun sem erum í – við ætlum að aukna áherslu á ráðgjöfina. Við erum óháður aðili og höfum haldið því á lofti í gegnum tíðina. Við erum eitt af fáum fyrirtækjum í tölvubransanum sem er óháður aðili. Við erum óháð birgjum og störfum þar af leiðandi með öllum, óháð því hvaðan tölvubúnaðurinn kemur. Viðskiptavinir félagsins hafa góða reynslu af því að vinna með óháðum aðila og geta þannig fengið aðstoð við að velja sér bestu lausnirnar og samstarfsaðila sem henta hverju sinni miðað við áherslur og þarfir. Við munum smám saman auka framboð okkar á þessu sviði. Við finnum að það er eftirspurn eftir óháðri ráðgjöf.“

Ögra „allt á einum stað“ hugmyndafræðinni
Að sögn Stefáns er fyrirtækið í rauninni að keppa við og í leiðinni að ögra ákveðinni hugmyndafræði, sem felur það í sér að hafa allt á einum stað. „Margir stærri aðilar sem við erum að keppa við bjóða upp á svoleiðis þjónustu, sem sagt að þeir séu í öllu hvað varðar upplýsingatækni. Við erum í raun að ögra þessari hugmyndafræði og teljum að það sé í ýmsum tilfellum betra að velja aðila sem einblínir á ákveðin atriði og sé óháður. Okkar skoðun er sú að enginn geti verið góður í öllu.“

Stefán nefnir sem dæmi fyrirtæki sem sé að innleiða hugbúnaðarlausnir og kaupi þær af birgja eða þjónustuaðila. „Það er ekki sjálfgefið að það sé best fyrir fyrirtækið að vera með reksturinn og þjónustuna hjá þessum sama aðila. Það gæti verið gott fyrir fyrirtækið að vera með óháðan aðila sér við hlið þegar kemur að því að sinna þjónustunni, sem getur gagnrýnt og veitt viðnám gagnvart hugbúnaðarhúsinu. Hugmyndafræðin okkar snýst því í rauninni um það að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .