Úrvalsvísitalan lækkaði um nærri eitt prósent í 3,4 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag. Tólf félög voru rauð og þrjú græn á aðalmarkaðnum í dag. Brim leiddi lækkanir en gengi félagsins féll um 2,6% en hefur engu að síður hækkað um 49% frá ársbyrjun.

Kvika banki fylgdi þar á eftir í 1,8% lækkun í nærri 300 milljóna veltu. Hlutabréfaverð Kviku stendur nú í 26,6 krónum á hlut og hefur alls lækkað um 3% í vikunni en gengi félagsins fór hæst í 27,4 krónur á föstudaginn síðasta. Mesta veltan var með hlutabréf Íslandsbanka og Arion en gengi fyrrnefnda bankans stóð óbreytt í 25 krónum í dag og Arion lækkaði um 0,7%.

Sýn hækkaði um 1,8%, mest allra félaga, í 180 milljóna veltu. Gengi fjarskiptafélagsins stendur nú í 46 krónum og hefur alls hækkað um 18% í ár. Reitir hækkuðu einnig um 0,6% í dag en fasteignafélagið tilkynnti eftir lokun markaða í gær um sölu fasteigna og byggingarréttar á Orkureitnum fyrir 3,8 milljarða króna.

Á First North markaðnum var mesta veltan með hlutabréf Play, þó aðeins 29 milljónir, en gengi flugfélagsins lækkaði um 2,4% í dag. Hlutabréfaverð Play stóð í 27,5 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar og hefur nú fallið um 5,8% frá því að það náði sínum hæstu hæðum á fimmtudaginn síðasta í 29,2 krónum.