Móðurfélag British Airways, IAG, segja að félagið sé tilbúið að hefja áætlunarflug á ný og hefur kallað eftir aðgerðum frá stjórnvöldum í Bretlandi um að leyfa aftur millilandaflug. Þetta kemur fram í frétt BBC . Ísland er meðal áfangastaða flugfélagsins og hægt er að bóka flug frá Íslandi til London í lok júní.

Flugfélagið segir að mikil eftirspurn sé eftir millilandaflugi og vill að hægt verði að fljúga til ákveðna landa án nokkurra skerðinga. Utanlandsferðir gætu fljótt verið leyfðar aftur þegar að útgöngubanni verður aflétt og má fljótlega búast við lista yfir þau lönd sem hægt verður að fljúga til.

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á flugfélagið og var rekstrartap móðurfélags British Airways, IAG, rúmlega milljarður evra á fyrsta ársfjórðungi. IAG er líka eigandi Iberia og Vueling sem bjóða upp á flug til Íslands.

Túristi birti í gær lista yfir þau erlendu flugfélög sem að munu fljúga hvað oftast til landsins í sumar. Samkvæmt listanum mun Wizz Air fljúga oftast til landsins og verður með að meðaltali 3,5 ferðir á dag. Þar á eftir koma Delta með 3 ferðir á dag, United með 1,6, SAS með 1,4 og Lufthansa með 1,3.