Alþingi braut jafnréttislög með því að hafa ekki jafnt kynjahlutfall í fimm nefndum og stjórnum sem kostið var í á Alþingi á þriðjudag. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV í dag, en rætt var við Brynhildi Flóvenz dósent í lögfræði við Háskóla Íslands.

Í fimm af tólf nefndum var hlutfall kvenna minna en 40% en jafnréttisáætlun stjórnarráðsins kveður á um að það eigi að vera lágmarkshlutfall hvors kyns um sig.

Brynhildur Flóvenz segir að jafnréttislög kveði skýrt um það að hlutfall hvors kyns í ráðum, nefndum og stjórnum hins opinbera sé ekki minna en 40% þegar fulltrúarnir eru fleiri en þrír.

Brynhildur segir því enga heimild til þess í lögum að undanskilja umræddar nefndir og telur einu leiðina fyrir þingið að lagfæra þetta að kjósa aftur í viðkomandi nefndir.