Pizzastaðurinn Eldofninn var í dag dæmdur til þess að greiða konu rúmlega 90.000 krónur auk dráttarvaxta í skaðabætur vegna járnstykkis sem var í pizzunni. Þá þurfti félagið að greiða henni 600.000 þúsund í málskostnað.

Konan beit í pizzuna og varð þá járnstykkið til þess að hún braut tönn. Í kjölfarið leitaði hún til tannlæknis og fór fram á við Eldofninn í tölvupósti að fyrirtækið myndi greiða fyrir tannlæknaþjónustuna. Í tölvupósti sagði hún að starfsmaður fyrirtækisins hefði boðið henni að fá pizzuna á 20% afslætti sem henni þótti „eiginlega fáránlegt“. Eldofninn féllst á að greiða reikning frá tannlækni að fjárhæð 27.490 krónur eftir að hafa fengið tölvupóstinn.

Málið var þó rétt að hefjast því konan, sem var haldin stanslausum verkjum, þurfti aftur að leita sér frekari aðstoðar tannlæknis og að því er kemur fram í tölvupósti sem hún sendi Eldofninum þurfti hún samanlagt að fara 7 eða 8 sinnum til tannlæknis.

Fór konan því fram á að Eldofninn myndi greiða fyrir allar tannlæknaheimsóknir auk skaðabóta vegna alls þess sem hún hafði þurft að ganga í gegnum sökum þessa. Forsvarsmönnum Eldofnsins þótti hins vegar nóg um og sögðu kröfu konunnar fáranlega og að hún væri ekki svara verð. Í kjölfarið stefndi konan Eldofninum.

Héraðsdómur taldi sannað með fullnægjandi hætti að tönn konunnar hefði brotnað vegna aðskotahlutar í pizzu frá stefnda og hann bæri því bótaábyrgð á tjóni hennar. Héraðsdómur dæmdi Eldofninn einnig til þess að greiða konunni 600.000 krónur í málskostnað.