Hjálmar Friðbergsson, lagerstarfsmaður hjá Coripharma, stofnaði Facebook hópinn Iðnaðarmenn Íslands haustið 2017 sem hefur um átta þúsund meðlimi í dag. Hjálmar hefur einnig sett í loftið smáforrit undir sama nafni sem auðveldar fólki að komast í samband við faglærða iðnaðarmenn.

Smáforritið Iðnaðarmenn Íslands var sett á laggirnar í apríl 2018. Notendur geta sent inn beiðnir um störf iðnaðarmanna og skráð þær á tiltekinn hóp, hvort sem það er fyrir smiði, rafvirkja eða aðra iðngrein. Nú þegar hafa 1.300 beiðnir farið í gegnum smáforritið.

Hjálmar segir að honum hafi oft þótt skorta upplýsingar á því hvort iðnaðarmenn væru með tilskylda menntun eða ekki, til að mynda á Facebook síðunni Vinna með litlum fyrirvara. Hann ákvað því að stofna sinn eigin hóp á Facebook undir nafninu Iðnaðarmenn Íslands þar sem leitast er við að eingöngu faglærðir iðnaðarmenn svari beiðnum.

Í smáforritinu, sem stofnað var í kjölfar Facebook síðunnar, er tilgreint hvaða starfsgrein hver iðnaðarmaður tilheyrir ásamt réttindum hans. Í dag eru 312 iðnaðarmenn skráðir í smáforritið en þar af eru 153 með sveinspróf og 159 með meistararéttindi. Algengasta iðngreinin er húsasmíði en 131 húsasmiður er skráður í forritinu. Til þess að komast á skrá þurfa iðnaðarmenn að staðfesta réttindi sín með ljósmynd af sveins- eða meistarabréfi.

Hjálmar segir að smáforritið muni ekki vinna nein verðlaun fyrir fegurð en segir það breyta litlu svo lengi sem það hafi netfang og símanúmer fagaðila. „Það sem skiptir máli er hvernig verkið er unnið heima hjá þér en ekki hvernig appið lítur út,“ segir hann.

Velunnarar halda uppi smáforritinu

Smáforritið og notkun þess er ókeypis, bæði fyrir iðnaðarmenn og almenning. Iðnaðarmenn geta þó orðið velunnarar fyrir 6.000 krónur á ári en þá fá þeir sendar beiðnir notenda um leið og þær eru skráðar inn. Aðrir iðnaðarmenn fá hins vegar beiðnir sendar mánaðarlega. Notendur geta einnig valið um að greiða 1.800 krónur fyrir einstakar beiðnir ef þeir vilja ná til allra iðnaðarmanna strax, hvort sem þeir séu skráðir sem velunnarar eða ekki.

Fyrirtækið Iðnaðarmenn Íslands vefir ehf. tekur ekki þóknanir af störfum iðnaðarmanna en Hjálmar útilokar það ekki í framtíðinni. Iðnaðarmenn sem skráðir eru í smáforritið eru ekki á vegum fyrirtækisins og er það því ekki ábyrgt fyrir störfum þeirra.

Skemmtileg viðbót við lagerstarfið

Hjálmar hefur unnið sem lagerstarfsmaður frá árinu 2003 og vinnur í dag sem umsjónarmaður lagers hjá Coripharma. Hann segir að Iðnaðarmenn Íslands hafi byrjað sem hugðarefni sem tengist áhuga hans á iðnaði sem og öllu sem því fylgir. Þróun forritsins sé skemmtileg viðbót við lagerstarfið.

„Ég er bara einn að þessu og er búinn að eyða ógrynni af klukkutímum í þetta,“ segir Hjálmar. „Mér finnst þetta gríðarlega skemmtilegur heimur og ég hef mjög mikinn áhuga á að vera þessum megin við dyrnar.“

Hjálmar útilokar ekki að snúa sér alfarið að Iðnaðarmönnum Íslands í framtíðinni og segir draum sinn að starfa við að kynna allar 50 lögverndaðar iðngreinar landsins. Verði það ekki að veruleika gæti farið svo að hann afhendi félagið til allra iðnfélaga eða iðnaðarmanna landsins eftir nokkur ár.

„Ef ekki er hægt að lifa á áhugamálinu gæti farið svo að ég afhendi iðnaðarmönnum landsins lykilinn af Iðnaðarmenn Íslands vefir ehf. og segi bara farið vel með þetta.“

Viðtalið við Hjálmar má finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .