Brugghúsið Álfur bruggar bjór úr kartöfluhýði sem annars færi til spillis. Haukur Páll Finnsson, einn af stofnendum Álfs, segir að fyrirtækið sé að gera hluti sem ekki hafi verið gerðir áður hér á landi.

„Það er þó ekki óþekkt að kartöflur séu notaðar við bjórgerð og hafa Þjóðverjar meðal annars bruggað bjór úr kartöflum. Þessi aðferð er þó ekkert sérstaklega útbreidd. Við nýtum kartöfluhýði frá Þykkvabæ og skilum því svo aftur til þeirra,  og þeir nýta svo hýðið meðal annars til landbindingar. Við erum því að auka nýtinguna og uppskera verðmæti úr þessu íslenska hráefni."

Að sögn Hauks hefur Álfur gefið út þrjár tegundir af bjór: Búálf, sem er Belgian Wit, Húsálf, sem er American Pale Ale og Blómálf, sem er Saison-bjór. „Í síðasta mánuði tókum við þátt í bjórhátíðinni The Annual Icelandic Beer Festival og fengu hátíðargestir að smakka þessar þrjár tegundir. Við fengum mjög jákvæð viðbrögð frá þeim sem smökkuðu bjórana og fékk Búálfur sérstaklega góðar viðtökur," segir hann.

Að sögn Hauks má nálgast bjórinn frá Álfi á þremur börum; Microbar í Kópavogi og Miðbænum, auk Session Bar sem er í Bankastræti. Einnig hafi Álfur verið á Mikkeller & Friends í Miðbænum. Þá segist hann reikna með að Ljósálfur, sem er lagerbjór sem brugghúsið er að þróa þessa dagana, og Búálfur verði fyrstu bjórar brugghússins sem fari í smásölu í Vínbúðinni.

Sjálfbærnin skiptir mestu máli

Nú nýlega var Álfur valið sem eitt af tíu fyrirtækjum til að taka þátt í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita, en þessi hraðall einblínir á nýjar lausnir og sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi.

„Það er mikill heiður að þau hafi horft á okkur sem fyrirtæki sem myndi henta fyrir þennan hraðal sem einblínir á þær atvinnugreinar sem eru hvað stærstar og mikilvægastar á Íslandi. Það sem við leggjum mesta áherslu á er að brugga bjór sem er sjálfbær. Við náum að skera niður kostnað með því að nýta hráefni sem ekki var nýtt áður og þurfum því að flytja inn minna af byggi. Uppistaðan í bjórnum er um það bil 50 prósent bygg og 50 prósent kartöfluhýði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .