Áætla má að tjón VÍS vegna brunans í Miðhrauni 4 í síðustu viku hafi numið nálægt 300 milljónum króna miðað við jákvæða afkomuviðvörun félagsins á þriðjudaginn . Í henni kemur fram að afkoma VÍS af vátryggingarekstri á fyrsta ársfjórðungi verði að líkindum 300 milljónum krónum betri en fyrri afkomuspá gerði ráð fyrir. Því þurfi ekki að uppfæra spá félagsins um samsett hlutfall fyrir árið þrátt fyrir tjón vegna brunans.

VÍS er tryggjandi fasteignafélagsins Regins sem átti 3.390 fermetra rými í Miðhrauni 4 sem alls er 5.488 fermetrar. Brunabótamat  þess rýmis sem var í eigu Regins nam 700 milljónum króna. Því má áætlað að tjónið sem varð í brunanum nemi að minnsta kosti vel á annan milljarð króna. Megnið af tjóninu mun þó að líkindum vera greitt af erlendum tryggingarfélögum vegna endurtrygginga íslenskra tryggingarfyrirtækja.

Alls var afkoma VÍS 650 milljónum króna betri á fyrsta ársfjórðungi en ráðgert var í fyrri spá. Fjárfestingatekjur voru 350 milljónum króna umfram afkomuáætlun.