Bryndís Einarsdóttir hefur verið ráðin fjármálastjóri KSÍ og hefur hún störf 1. október næstkomandi. Þetta kemur fram í frétt á vef Knattspyrnusambandsins . Bryndís var valin úr hópi 64 umsækjenda um starfið en umsjón ráðningaferlisins var í höndum Capacent.

Bryndís er með MBA próf í viðskiptafræði frá Davenport University, Michigan en einnig er hún menntuð sem íþróttafræðingur (BSc).

Bryndís hefur víðtæka reynslu af rekstri en hún var búsett í Bandaríkjunum í 12 ár og starfaði þar sem skrifstofustjóri fasteignafélagsins NPCOA. Frá árinu 2006 hefur Bryndís m.a. starfað sem fjárreiðustjóri hjá Lagernum ehf og nú síðast sem fjármála- og framkvæmdastjóri The Pier.

Bryndís hefur verið viðloðandi íþróttir frá blautu barnsbeini og lék m.a. með U-16 ára landsliðum bæði í fótbolta og handbolta.