Við erum leiðandi fyrirtæki í að framleiða grænt metanól en flestir vita kannski ekki mikið um metanól,“ segir Sindri Sindrason, forstjóri Carbon Recycling International, CRI. Sindri tók við starfinu árið 2016 eftir að hafa verið stjórnarformaður félagins frá 2008 og er enginn ný­ græðingur í íslensku viðskiptalífi. Áður var Sindri framkvæmdastjóri Pharmaco, síðar Actavis, og formaður stjórnar Eimskipa. CRI var stofnað árið 2006 og hóf árið 2011 byggingu á metanólverksmiðju á iðnaðarskala við Svartsengi.

Byggingu verksmiðjunnar, sem kennd er við George Olah, Nóbelsverðlaunahafa í efnafræði, var lokið árið 2012 og framleiðsla á metanóli hófst sama ár. Framleiðslugeta var síðan aukin árið 2015 og er nú 4.000 tonn á ári. Nú starfa 42 hjá CRI, flestir á Íslandi og í Kína. Stór hluti tæknimenntaðs starfsfólks CRI kemur frá útlöndum. „Við höfum náð í dálítið af fólki úr olíubransanum, bæði Íslendinga sem fluttu út á sínum tíma og útlendinga,“ segir Sindri.

Árið 2013 fjárfesti Methanex, stærsti framleiðandi og dreifingaraðili metanóls í heiminum, í CRI og árið 2015 keypti kínverski bílaframleiðandinn Geely hlut í fyrirtækinu. Prófanir á metanólknúnum Geely-bílum hófust svo á Íslandi vorið 2016. „Metanól er kallað tréspíri á gamalli íslensku en það er notað í fjölmargar vörur í efnaiðnaði, þar á meðal lím, málningu, plast, flísefni og ótalmargt annað. Það sem menn hafa hins vegar verið að horfa til í auknum mæli er notagildi þess sem eldsneytis,“ segir Sindri.

„Hvort metanólið telst grænt veltur á því hvaða orku þú notar til framleiðslunnar, varan er hinsvegar alltaf eins.“ Hann segir fleiri hafa lagt í þá vegferð að framleiða grænt metanól en CRI er að sögn Sindra eina fyrirtækið í heiminum sem framleið­ ir grænt metanól á iðnaðarskala beint úr koltvísýringi og vetni. „Metanól er alla jafnan unnið úr jarð­ gasi eða jafnvel kolagasi. Hugmyndafræðin hjá okkur byggir á að taka koltví­ sýring sem myndast sem úrgangur frá orkuverum og verksmiðjum og nýta hann sem hráefni. Við hvörfum hann við vetni sem   getur myndast sem hliðarafurð í margskonar ferlum en í verksmiðjunni í Svartsengi framleiðum við það með því að rafgreina vatn. Eingöngu er notuð endurnýjanleg orka til að framleiða rafmagnið og við fáum bara kolefnið að láni, sem ella væri á leið út í andrúmsloftið,“ segir Sindri. „Fyrir utan að framleiða metanól framleiðum við heilmikið súrefni sem aukaafurð. Við sleppum því enn sem komið er út í loftið en gætum nýtt það betur í framtíðinni.“

Með því að nýta koltvísýringinn til að framleiða metanól má í raun segja að koltvísýringurinn sé endurnýttur áður en hann sleppur út í andrúmsloftið. Við venjulegar aðstæður myndi iðnaðurinn eða orkuverið sleppa honum út í andrúmsloftið. Með ferli CRI nýtist hann hins vegar sem orkuberi fyrir vetni í metanóli. Koltvísýringurinn sleppur svo út í andrúmsloftið þegar metanólinu er brennt en þá hefur notagildi hans verið tvöfaldað ef svo má að orði komast. „Það væri hægt að safna honum úr andrúmsloftinu en það er dýrt og orkufrekt. Auðveldara er að taka hann beint af kúnni áður en hann þynnist út í andrúmsloftinu.“

Úr 4.000 í 50.000

Sindri segir fyrirtækið nú á þeim stað að geta rúllað sínum lausnum inn á markað á stórum skala. „Við erum að vinna að slíkum verkefnum. Það er þörf fyrir þessa tækni alls staðar í heiminum en við höfum einbeitt okkur að tveimur mörkuðum – Evrópu og Kína.“ Í Evrópu tryggja reglugerðir framleiðendum græns eldsneytis ákveðið verð fyrir vöruna, sem gerir framleiðslu metanóls ábatasama. Í Kína er annað uppi á teningnum. „Þar er margskonar iðnaður og aðgengi að vannýttum orkustraumum, til dæmis vetni sem sumsstaðar er hrein aukaafurð. Það er tiltölulega ódýrt að vinna metanólið þar sem vetnið er þegar til staðar. Vetnið er dýrt í flutningum og oftast er því brennt á staðnum til að búa til gufu, sem er léleg nýting á orku og hráefni. Ef þú getur sett niður metanólverksmiðju við hliðina á framleiðandanum og nýtt þennan orkustraum kemstu því í ódýrt hráefni.“

Starfsemi CRI fellur því vel að því sem er að gerast í heiminum á sviði umhverfisverndar. Ekki nóg með það heldur er tækni CRI hvort tveggja skalanleg og arðbær. „Verksmiðjan í Svartsengi er tiltölulega lítil – hún framleiðir 4.000 tonn á ári. Við höfum nýtt hana bæði til að þróa tæknina okkar áfram og til að þróa nýja markaði. Næstu verksmiðjur sem við ætlum að byggja eru um 50.000 tonn, tólf sinnum stærri en þessi. Þá ertu kominn með hagkvæmari rekstur. Það er hinsvegar ekki eðlismunur á stórri verksmiðju og þeirri sem sem við erum núna með í rekstri. Við erum búnir að taka mikilvægasta skrefið, frá tilraunaverksmiðju sem var byggð 2007 og framleiddi lítra á dag yfir í þessa verksmiðju sem getur framleitt 15.000 lítra á dag,“ segir Sindri. „Það er mikið skrifað og fjallað um þetta ferli í dag en enginn hefur hannað, byggt og rekið verksmiðju af þeirri stærðargráðu sem við eigum. Allir keppinautarnir eru annaðhvort enn á pappírnum eða á rannsóknarstofunni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .