Rúmlega 90% forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja búast við að tekjur þeirra muni verða minni á öðrum ársfjórðungi þessa árs, miðað við annan ársfjórðung í fyrra, vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins sem veldur Covid 19.

Meðallengd mats þeirra á tímalengdinni sem áhrifanna varir er 8 mánuðir, en flestir forsvarsmannanna, eða um 30% þeirra, telja áhrifin vara í þrjá til fjóra mánuði, fjórðungur telja þau standa í fimm til sjö mánuði og 29% töldu áhrifin vara lengur en 10 mánuði.

Áætla forsvarsmennirnir að tekjur félaganna muni minnka að meðaltali um 50% að því er fram kemur í könnun sem Maskína gerði fyrir Samtök atvinnulífsins dagana 26. til 31. mars, en meðal þeirra sem svöruðu eingöngu er matið að samdrátturinn verði 55%.

Því til viðbótar telja 80% forsvarsmanna fyrirtækjanna að tekjurnar muni minnka milli ára ef horft er til marsmánuðar, og hefur sama hlutfall gripið til hagræðingaraðgerða vegna ástandsins. Þar af er skert starfshlutfall starfsmanna algengasta aðgerðin, en þar á eftir kom niðurskurður annars rekstrarkostnaðar.

15% forsvarsmannanna telja að tekjur fyrirtækis þeirra muni standa í stað en 5% að þær aukist ef horft er á muninn þegar marsmánuður er gerður upp. Meðalminnkunin er áætluð 37%, en hjá þeim sem svara er samdrátturinn tæplega 50%.

Uppagnir vegna ástandsins sem myndast hefur vegna faraldursins nema tæplega 6 þúsund, en 24 þúsund eru komnir í skert starfshlutfall, sem er þó nokkru lægri en þau 30 þúsund sem sótt höfðu um hlutabætur á föstudaginn 3. apríl síðastliðinn. Hlutabótaúrræðið er mest notað í flokki flutninga og ferðaþjónustu, eða helmingur en þar á eftir kemur verslun og önnur þjónusta.