Berkshire Hathaway, fjárfestingarfyrirtæki Warren Buffett, greindi frá því á föstudaginn að það hefði fest kaup á ráðandi hlut bandaríska raforkudreifingarfyrirtækinu Oncor Electric Deleivery Co fyrir 9 milljarða dollara. Þetta kemur fram í frétt Reuters .

Kaupin sem eru háð samþykki eftirlitsstofnanna fara þannig fram að Berkshire kaupir móðurfyrirtæki Oncor, Energy Future Holdings Corp og bjargar þar með móðurfyrirtækinu frá gjaldþroti. Energy Future Holdins fer með 80% eignarhlut í Oncor.

Oncor er stærsti dreifingaraðili á raforku í Texas-ríki og sjötti stærsti innan Bandaríkjanna. Fyrirtækið dreifir raforku til rúmlega 3,4 milljóna heimila og fyrirtækja í gegn um 196.000 km raflínunet sitt.

Samkvæmt frétt Reuters eru kaupin talinn sýna það að Greg Abel, framkvæmdastjóri orkudeildar Berkshire Hathaway sé farinn að verða meira áberandi innan fyrirtækisins. Er Abel talinn líklegur til að taka við stjórn Berkshire þegar Warren Buffet, sem er orðinn 86 ára gamall lætur af störfum.