Jósep Húnfjörð Vilhjálmsson og félagar hans ákváðu að nýta sér langa reynslu sína við vinnslu á stórum gagnakerfum þegar þeir stofnuðu Prógramm ehf. Sjá þeir fyrir sér mikla möguleika við aukna sjálfvirkni- og rafvæðingu greiðslukerfa.

Fyrirtækið Prógramm ehf. var stofnað undir lok árs 2007 sem var mikill umrótatími í íslenskum hugbúnaðargeira, fjölmörg fyrirtæki stóðu í sameiningum sem sköpuðu nokkra stóra risa sem við þekkjum í dag á markaðnum.

Byggja á 20 ára reynslu

„Við höfum núna hátt í tuttugu ára reynslu af því að vinna fyrir Tryggingastofnun ríkisins og síðar Sjúkratryggingar Íslands, sem er okkar stærsti viðskiptavinur, en svo erum við að vinna fyrir margar aðrar stofnanir og fyrirtæki líka,“ segir Jósep um fyrirtækið sem sérhæfir sig í að þjónusta stofnanir og stór fyrirtæki.

„Við höfum vaxið frá fjórum stofnendum upp í tuttugu starfsmenn á þessum tíu árum. Þótt við séum auðvitað pínulitlir, þá viljum við gera vel það sem við gerum.“ Jósep segir framtíðarsýn fyrirtækisins liggja í því að efla fyrirtækið í því sem það gera best í dag, það er að þjónusta stofnanir og stór fyrirtæki.

„Og taka að okkur stærri hluta af þeim markaði ef hægt er, enda sjáum við fram á að miklar framfarir í aukinni rafvæðingu í framtíðinni. Við erum komnir með mikla reynslu í því að taka stór og flókin vinnslukerfi fyrir stofnanir og endurforrita þau, en þetta þarf að gerast samhliða því að tryggður sé öruggur rekstur á kerfunum,“ segir Jósep sem segir það liðna tíð að fólk þurfi að sendast með pappíra á milli stofnana og þjónustuaðila eða því sem næst.

Allt að sjálfvirknivæðast

„Við sjáum fyrir okkur að það hætti alveg, það er framtíðin sem er að skella á, enda gríðarlega ör þróun í þessu hjá stofnunum sem og í atvinnulífinu. Fólk kannski tekur ekki eftir því en það er allt að sjálfvirknivæðast. Ef þú hefur til dæmis farið til sjúkraþjálfara nýlega þá fær hann allar beiðnir rafrænt, reikningarnir fara yfir til sjúkratrygginganna rafrænt og allt er reiknað á sekúndubrotum. Kerfið tryggir svo að sjúkraþjálfarinn fær greitt þann hluta sem kemur frá ríkinu inn á reikninginn sinn daginn eftir.“

Síðustu fjögur til sex árin hefur hvert kerfi á eftir öðru hætt að nota pappír og í staðinn hafa komið alsjálfvirk kerfi segir Jósep. „Gott dæmi er kerfið í kringum tannlækningar sem breytt var fyrir nokkrum árum, en áður voru þeir að senda inn heilu bunkana af reikningum sem voru svo slegnir inn hjá stofnununum og svo var greitt eftir því, en oft þurfti svo að gera leiðréttingar eftir á, en núna er þetta allt sjálfvirkt og hver reikningur er villuleiðréttur á þeirri sekúndu sem hann er sendur yfir,“ segir Jósep sem segir mikinn sparnað felast í þessu í bæði tíma og peningum.

„Nýjasta verkefnið okkar er vegna húsnæðisbótakerfisins, þar sem fólk mun þá geta sótt um húsnæðisbætur sem kerfið þá reiknar út hve háar yrðu og þær síðan greiddar út.“

Eftir hugmynd Péturs Blöndal

Jósep Húnfjörð Vilhjálmsson hjá Prógrammi ehf. segir að síðasta hálfa áratuginn eða svo hafi miklar breytingar verið í átt til aukinnar sjálfvirkni og rafvæðingar opinberra kerfa. Jósep segir að ein fyrsta stóra sjálfvirknivæðingin sem fyrirtækið hafi komið að hafi verið í tannlækningum og svo lyfjamálum þegar nýtt lyfjagreiðslukerfi sem gert var eftir hugmyndum Péturs Blöndal heitins alþingismanns hafi komið í gagnið.

„Þú ættir að kannast við þetta, því nú þegar þú ferð í apótekið, sem er þá með þjónustutengingu beint við Sjúkratryggingar Íslands, þá reiknar kerfið út sjálfvirkt greiðsluhluta hvers einstaklings. Hve mikið þú þarft að borga fer þá eftir því í hvaða þrepi þú sért í,“ segir Jósep.

„Síðan höfum við verið að vinna að nýju lánakerfi fyrir lánasjóð íslenskra námsmanna en við unnum meðal annars að miðlægri skráningu fyrir heilsugæslu sem og greiðslumódel fyrir öll vistheimili landsins og fleira. Þetta eru góð dæmi um það sem við gerum.“

  • Kristján Þór Kristjánsson, Gunnar Einarsson og Haraldur Haraldsson stofnuðu félagið ásamt Jósep Húnfjörð Vilhjálmssyni en þeir höfðu unnið lengi saman áður hjá ýmsum fyrirtækjum.
  • Tekjur Prógramms ehf. á árinu 2016 námu 334 milljónum króna en félagið lenti í þriðja sæti yfir lítil félög á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar.
  • Eignir félagsins í lok árs 2016 námu tæplega 194 milljónum króna en eigið fé þess nam tæpum 131 milljón svo eiginfjárhlutfall þess nam 68%.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .