Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sækist eftir því að verða varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Þetta tilkynnir hann á Facebook-síðu sinni í dag.

Landsþing Vinstri grænna fer fram 18.-20. október næstkomandi en þar verður meðal annars kjörinn nýr varaformaður. Edward H. Huijbens lét af störfum sem varaformaður flokksins í upphafi árs eftir að hann fluttist búferlum til Hollands vegna vinnu.

„Þegar ég hugsa um drauma mína og framtíðarsýn þá eru hvorutveggja samofin umhverfismálum og réttlátu og friðsömu samfélagi. Ég vil að árið 2030 getum við litið til baka og sagt að okkur hafi tekist að takast á við loftslagsvána og það með félagslegt réttlæti og náttúruvernd að leiðarljósi. Loftslagsváin snertir okkur öll sem búum í þessum heimi. Það er stórt réttlætismál að aðgerðir í loftslagsmálum geti nýst umhverfi og náttúru og á sama tíma tekist á við efnahagslegt misrétti. Þetta er sýn um nýja tíma,“ segir í yfirlýsingu Guðmundar .

Guðmundur hefur setið sem umhverfisráðherra frá árinu 2017 en hann er utanþingsráðherra. Áður var hann framkvæmdastjóri Landverndar.