Erlendir aðilar hafa aflað sér fjölda einkaleyfa á sviði jarðvarma hér á landi og erlendis síðustu ár á meðan íslenska fyrirtæki hafa setið eftir. Þetta kemur fram í skýrslu sem kynnt var á málþingi um hugverkarétt í jarðvarmageiranum á föstudaginn. Íslendingar gætu hafa kastað frá sér verðmætum að mati Viðars Helgasonar, klasastjóra Íslenska jarðvarmaklasans og Jóns Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Einkaleyfastofu.

„Það sem við höfum verið að flytja út hingað til hefur einskorð- ast mest við að selja klukkutíma í ráðgjöf. Það er minnstur virðisauki í að selja klukkutíma. Ef við gætum farið út í að selja lausnir, hugbúnað eða vélbúnað þá er orðin miklu meiri skalaleiki eða verðmætasköpun í því,“ segir Viðar.

Ísland hafi setið eftir

„Einu tólin sem við höfum til að halda utan um þessi óáþreifanlegu verðmæti sem skapast í rannsóknum og þróun eru hugverkaréttindi. Tölurnar sýna að Ísland er ekki að nýta öll þau tækifæri til að hámarka þau verðmæti. Þær sýna líka að aðrir erlendir aðilar eru að taka við sér, bæði erlendis og á Íslandi, á meðan íslensk fyrirtæki sitja eftir. Það eru gríðarleg tækifæri fyrir fyrirtækin bæði til að skapa tekjur fyrir fyrirtækin og samfélagið sem er þá grunnur að sjálfbærum hagvexti, sem byggist þá ekki á auðlindinni sjálfri heldur hugviti. Það eru þarna gríðarleg tækifæri fyrir íslenskan jarðvarma og Ísland í heildina sem getur orðið grunnur að hugverka- eða alþjóðageira,“ segir Jón.

Opinberir aðilar hafi aðra hvata

Viðar bendir á að orkugeirinn á Íslandi er að mestu drifinn áfram af opinberum aðilum. „Sem er alls ekkert slæmt en það kann að útskýra að fyrirtækin hafi ekki hvata til að skrá hugverk sem hluta af eignarsafni sínu heldur eru fyrst og fremst að horfa á orkuöryggi, að veita góðu þjónustu, rafmagn og hita,“ segir Viðar. Þá þurfi háskólarnir, sem séu leiðandi í rannsóknum og þróun í orkugeiranum, og atvinnulífið að tala betur saman að sögn Viðars. „Af hverju eru rannsóknir og þróun ekki að skila sér betur út í atvinnulífið? Þetta á kannski við í fleiri geirum atvinnulífsins,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .