Stefnt er að því að gangsetja 32 þúsund tonna kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík eftir tvo mánuði.  Auk þess að reisa verksmiðju er verið félagið PCC Seaview Residences ehf. að byggja 22 íbúðir í nýju hverfi sunnarlega á Húsavík. Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC Bakka Silicon, segir að þetta séu 11 parhús.

„Staðan var einfaldlega þannig að húsnæðismarkaðurinn var mjög þröngur," segir Hafsteinn. „Leiguhúsnæði er til að mynda að stórum hluta í leigu til ferðamanna yfir sumartímann. Við brugðum því á það ráð að byggja sjálfir íbúðir fyrir starfsfólk. Það eru plön um að byggja meira en ef einhver annar vill taka það að sér þá yrðum við mjög ánægðir. Við höfum engan sérstakan áhuga á því að vera byggingafyrirtæki."

Íslandsbanki og lífeyrissjóðir á meðal fjárfesta

PCC BakkiSilicon, sem byggir verksmiðjuna, er að meirihluta í eigu þýska fyrirtækisins PCC SE (PCC Group). Bakkastakkur slhf., sameignarfyrirtæki íslenskra lífeyrissjóða og Íslandsbanka, á einnig hlut í fyrirtækinu og kemur að fjármögnun verksmiðjunnar en aðallánveitandi er KfW IPEX-bankinn, sem er með höfuðstöðvar í Frankfurt í Þýskalandi.

PCC SE er eignarhaldsfélag alþjóðlegra einkafyrirtækja sem starfa í orku-, efna- og flutningaiðnaði. Hjá dótturfélögum fyrirtækjasamsteypunnar starfa um 3.000 manns á 39 byggingarsvæðum í 17 löndum. Aðalverktaki byggingarframkvæmda PCC á Bakka er SMS group GmbH, sem er með höfuðstöðvar í Düsseldorf í Þýskalandi.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .