Eignarhaldsfélag Suðurnesja fjárfesti nýlega 15 milljónum í nýsköpunarfyrirtækinu Fibra sem þróar nú byggingareiningar úr trefjastyrktu plasti. Verkefnið hefur áður verið stutt af Tækniþróunarsjóði um 70 milljónir króna. Ef sýn þess gengur upp gæti það umbylt byggingariðnaði enda hafa nýju byggingareiningarnar ýmsa eiginleika sem annað byggingarefni hefur ekki.

„Fyrirtækið var stofnað 2015 í kringum þá hugmynd að búa til hús úr glertrefjum og steinull. Við fengum einkaleyfi fyrir þessu á Íslandi og erum með umsóknir í gangi í Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir Regin Grímsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Fibra. Regin segir viss tímamót vera í rekstri fyrirtækisins um þessar mundir. „Við vorum að leggja inn teikningar til byggingafulltrúans í Grindavík og þar ætlum við að reisa fyrsta íbúðarhúsið,“ segir hann. En hvað áætlar hann að það taki langan tíma? „Það tekur svona fimm daga,“ segir hann og bendir á að skammur byggingartími sé einn af kostum þessarar nýju tegundar húsa. Húsið verður um 140 fermetrar og spurður að því hvað verð­ ur hýst í húsinu segir hann: „Ég. Þetta verður bara íbúðarhús fyrir mig,“ segir hann.

Ástæðan fyrir því að hann byggir fyrsta húsið fyrir sjálfan sig er ekki eftirspurnarskortur. „Það er langur biðlisti og fólk hamast í að fá verð og geta gert samning við okkur. Það hefur hins vegar tekið dálítið lengri tíma að glíma við opinbera kerfið heldur en við bjuggumst við.  Árið 1977 vorum við fyrst að búa til báta úr svipuðu efni og þá tók hálft annað ár að koma því í gegnum stjórnsýsluna en þetta er búin að vera miklu stærri vindmylla og tregari,“ segir Regin og bætir við að verið sé að ýta á fé­ lagið að hefja útflutning á einingunum sem allra fyrst.

Hvers vegna allur þessi áhugi, hvaða kosti hafa einingarnar umfram annað byggingarefni?

„Fyrst og fremst eru það gæðin, byggingarhraðinn og endingin. Auk þess eru einingarnar viðhaldsfríar. Svo erum við búin að senda einingar út til Ungverjalands í brunapróf. Og þetta bara brennur ekki. Sömuleiðis standa þessi hús af sér jarðskjálfta betur heldur en nokkur önnur hús. Það er vegna þess að trefjastyrkta plastið er miklu léttara og sveigjanlegra. Í jarðskjálftum myndast þessar láréttu hreyfingar sem eru svo erfiðar byggingum og þá er það yfirleitt þannig að steypt húsin eru svo þung að þau brotna undan eigin þunga. Trefjahúsin eru svo létt að þau sveiflast bara með en svo er það líka þannig að ef svo ólíklega vildi til að það kæmi sprunga þá er ekkert mál að laga hana.

Endingin á plastinu í okkar einingum getur verið svona 500-1000 ár. Sem er áður óþekkt ef þú telur frá píramídana í Egyptalandi,“ segir Regin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .