Viðar Þorkelsson,forstjóri Valitor, hefur leitt fyrirtækið í gegnum miklar breytingar frá því að hann tók við stjórnartaumunum árið 2010. Stjórn fyrirtækisins samþykkti nýja stefnu síðla árs 2012 sem fól meðal annars í sér að fyrirtækið hóf að horfa í mun meiri mæli á erlenda markaði eftir að hafa verið lengi í forystu í kortaviðskiptum á íslenskum markaði.

Frá breytingunum hefur fyrirtækið vaxið að meðaltali um 30% ár hvert og virðist ekki sjá fyrir endann á vexti félagsins erlendis þar sem Valitor hefur háleit markmið. Viðar segir sterkt gengi krónunnar að undanförnu í bland við háan launakostnað þó setja strik í reikninginn fyrir fyrirtækið sem sjái sig í auknum mæli knúið til að færa starfsemi sína úr landi.

Sögðu skilið við þáverandi viðskiptavini

„Við breyttum verulega nálgun okkar á erlenda markaði en félagið hafði þá lengi verið leiðandi í kortaviðskiptum hér á landi, líkt og við erum enn í dag. Í desember 2012 má hins vegar segja að við höfum byrjað upp á nýtt en breytingin fól m.a. í sér að við sögðum skilið við töluvert af þáverandi viðskiptavinum en þeir sem samrýmdust ekki stefnu okkar til framtíðar féllu út.

Eitt af því sem er sérstakt og einkennir félagið í dag er að við þróum okkar eigin greiðslumiðlunarhugbúnað á alþjóðlegum forsendum en hugbúnaðurinn sem við vorum að vinna með áður var frekar skrifaður með Ísland og íslenskan markað í huga. Við fórum hins vegar af stað með þessa vinnu með það að markmiði að skrifa hugbúnað sem myndi bæði henta fyrir breskan markað sem og Norðurlöndin, en auk Íslands þá eru það svæðin sem við höfum helst verið að hasla okkur völl á.

Í framhaldi af þessari þróun tókst okkur svo að laða að okkur ýmsa góða samstarfsaðila sem í dag eru leiðandi í því sem kalla má fjártækni (e. fintech),“ útskýrir Viðar.

Viðtalið má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Viskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.