Capacent spáir að vísitala neysluverðs hækki um rúmlega 0,3% í desember, sem er sama hækkun og í desember í fyrra. Því sé 12 mánaða verðbólga óbreytt milli mánaða í 2,1%.

Hins vegar trúa þeir því að breytingar í undirliðum vera nokkuð aðrar en í fyrra. Hækkun fasteignaverðs sé nú mun hraðari og velta á fasteignamarkaði töluvert meiri en þá, eða 0,1% meiri ef spá þeirra gengur eftir.

Óbreytt eldsneytisverð

Capacent telur ekki að hækkun eldsneytisverðs verði meiri að sinni, og vísa þeir til þess að olíuverð hafi hækkað hressilega í byrjun desember og verðið sé nú 15% hærra en í lok nóvember. Það hafi hins vegar lækkað duglega í nóvember en innlent eldsneytisverð hafi ekki fylgt verðlækkuninni að fullu eftir.

Segja þeir að á móti þessu komi að verð ýmissa innfluttra vara hafi lækkað mikið að undanförnu, þá sérstaklega innflutt matvæli, raftæki, tölvur og sjónvörp.

Matur lækkar en föt standa í stað

Gerir Capacent ráð fyrir að lækkun matvöruverðs nemi 0,5%, en óbreyttu fataverði frá síðasta mánuði. Hins vegar verði örlítil verðlækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði, raftækjum, sjónvörpum og bifreiðum, lyfjum og lækningavörum og fleirum innflutum vörum.

Samkvæmt könnun fyrirtækisins hafa flugfargjöld hækkað um 15-20% frá nóvembermánuði og vísa þeir í mikla eftirspurn á flugi yfir hátíðirnar. Flugfargjöld hafi hækkað um 17,6% í desember í fyrra, og gerir fyrirtækið ráð fyrir sömu prósentuhækkun nú.