Hagnaður gosdrykkjaframleiðandans Coca Cola jókst um 67% á öðrum ársfjórðungi miðað við sama ársfjórðung í fyrra, samkvæmt tölum sem birtar voru í dag og Reuters segir frá . Hlutabréf í félaginu hækkuðu um 2,7% eftir birtinguna.

Mestur vöxtur hefur verið í sykurminni og sykurlausum drykkjum, en Coca Cola og Pepsi hafa lagt áherslu á heilsusamlegri drykki en áður, í takt við auknar áherslur neytenda í þá átt.

Coca Cola býður nú upp á fleiri bragðtegundir sykurskerta drykksins Diet Coke, ásamt því að hefja sölu sykurlausra drykkja á nokkrum smærri mörkuðum nýverið.

Sala Coca Cola á heimsvísu jókst um 3% á síðasta ársfjórðungi, og tekjur gosdrykkjahluta samstæðunnar jukust um 5%. Salan jókst um 7% í Evrópu eftir að fyrirtækið breytti uppskrift sinni að nokkrum drykkjum vegna upptöku sykurskatts í Bretlandi. Salan jókst einnig um 7% í Norður-Ameríku.

Leiðréttur hagnaður á hlut var 61 sent, en greiningaraðilar höfðu spáð 60 sentum. Vergur hagnaður á hlut var 54 sent, en til samanburðar var hann 32 sent á sama fjórðungi árið áður.