Hlutabréf í kanadíska fyrirtækinu Aurora Cannabis og fleiri fyrirtækjum sem framleiða kannabis hafa hækkað töluvert vegna fregna um að Coca-Cola eigi í viðræðum við Aurora um framleiðslu á drykkjum sem innihalda CBD, efni sem finnst í kannabis sem er verkjastillandi, en veldur ekki vímu.

Bloomberg segir frá viðræðunum , en í samtali við fréttastofuna sagði talsmaður Coca-Cola: „Við fylgjumst náið með vexti efnisins CBD sem viðbótarefni í heilsudrykkjum um allan heim. Markaðurinn er að þróast hratt, en engin ákvörðun hefur verið tekin ennþá.“

Hlutabréf í Aurora Cannabis hafa hækkað um allt að 23%, og hlutabréf í kannabisframleiðandanum Tilray hækkuðu um tæp 10% þegar mest lét.

Í síðasta mánuði tilkynnti Constellation Brands, sem framleiðir bjórinn Corona, að fyrirtækið hygðist eyða 3,8 milljörðum dollara, yfir 400 milljörðum króna, í að auka hlut sinn í Canopy Growth Corp, kanadískum kannabisframleiðanda með heildarverðmæti yfir 10 milljörðum dollara.