Líkt og fjallað var um í gær batnaði afkoma stærstu heildsala landsins um þriðjung á síðasta ári eftir að erfitt ár þar á undan. Þegar litið er yfir fyrirtækin fjögur má sjá að þrjú þeirra hafa að einhverju leyti náð vopnum sínum aftur eftir erfitt ár 2017 þegar samanlagður hagnaður þeirra fór úr 1,4 milljörðum árið 2016 í 141 milljón árið eftir þar sem afkoma þeirra allra versnaði.

Stærsti áhrifaþátturinn á matvörumarkaði árið 2017 var óumdeilanlega opnun Costco í Garðabæ sem tók viðskipti frá mörgum innlendum heildsölum með því að bjóða upp á lægra innkaupsverð á ýmsum vöruflokkum fyrir íslenska framleiðendur, veitingahús og smærri verslanir. Að sögn aðila sem Viðskiptablaðið ræddi við á markaðnum hafa áhrifin af innkomu Costco þó að einhverju leyti gegnið til baka og markaðurinn náð ákveðnu jafnvægi.

Eins og með flest íslenskt fyrirtæki er launakostnaður ein stærsta áskorun fyrirtækjanna sem eiga tiltölulega erfitt með að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag. Við þær aðstæður stendur fyrirtækjunum í raun tvennt til boða, annaðhvort að hagræða eða ná að stækka. Í þessu samhengi má nefna að auk flutnings Innnes í nýtt vöruhús á næsta ári hefur ÍSAM flutt stóran hluta starfsemi sinnar á einn stað á Korputorgi frá fyrrverandi höfuðstöðvum fyrirtækisins við Tunguháls. Þá keypti 1912 65% hlut í Emmessís í sumar.

Þrátt fyrir að hægja hafi tekið á hagkerfinu hefur hægari vöxtur ekki komið mikið niður á heildsölum, þá sérstaklega með matvöru á einstaklingsmarkaði þar sem öll þurfum við jú að borða. Þá virðist sem eftirspurnin í ár verði að einhverju leyti meiri í ár þar sem fleiri Íslendingar hafa ferðast innanlands auk þess sem útlit er fyrir að ekki verði samdráttur í neyslu ferðamanna í krónum talið þrátt fyrir fækkun þeirra.