„Allt vinnur þetta saman að því að gera ferðina í Costco að ævintýri,“ segir Steve Pappas í viðtali í tímariti Landsbankans um stöðu verslunar og þjónustu hér á landi. Þar segir hann að fyrirtækið reiði sig mikið á skyndiákvarðanir viðskiptavina.

„Já, algjörlega. Við viljum vera ómótstæðileg í augum Costco-meðlima. Við hreykjum okkur af því að fólk segi: Í hvert sinn sem ég fer í Costco ætla ég að eyða 50 dollurum en enda á að eyða 200. Og það er vegna þess að kjörin eru svo góð.“

Allt að 12 þúsund vörutegundir á ári

Steve Pappas segir að í hverju vöruhúsi Costco séu einungis um 3.800 vörutegundir hverju sinni.

„En á heilu ári gætu kúnnarnir okkar séð tólf þúsund vörutegundir af því að við skiptum þeim svo ört út,“ segir Steve en fyrirtækið leggur jafnframt mikið upp úr því að leyfa viðskiptavinum að smakka og prófa vörurnar.

„Um þriðjungur eru vörur sem við seljum alltaf – þú getur til dæmis alltaf gengið að 10 kílóa poka af sykri eða 20 kílóa poka af hrísgrjónum sem vísum.

Fjársjóðsleit galdurinn við Costco

Annar þriðjungur eru árstíðabundnar vörur, útilegubúnaður á vorin og sumrin, skíði, sleðar og skautar um vetur og jólaskraut um jólin, svo að einhver dæmi séu nefnd.

Síðasti þriðjungurinn eru svo tækifærisvörur, vörur sem fólk kaupir í hálfgerðri fjársjóðsleit. Það er galdurinn við Costco – fólk kaupir aldrei bara það sem það ætlaði sér.

Þú mætir kannski til að kaupa þér grillaðan kjúkling og sjampó en sérð svo tilboð á golfkylfum sem þú getur ekki látið fram hjá þér fara.“