Snyrtivöruframleiðandinn Coty hefur gefið út að fyrritækið muni hugsanlega fara í samstarf við raunveruleikaþáttastjörnuna Kim Kardashian. Frá þessu er greint á vef Reuters .

Samstarfið mun felast í nýrri snyrtivörulínu en Coty á nú þegar 600 milljóna dollara hlut í fyrirtæki systur Kim, Kylie Jenner. Nýverið var Jenner sökuð um að hafa ýkt velgengi snyrtivörulínunnar sinnar en nýji framkvæmdastjóri Coty sagði í yfirlýsingu að fréttir af því hafi komið honum í opna skjöldu.

Verð á hlutabréfum í Coty hefur hækkað um 7% eftir að fregnir bárust af mögulegu samstarfi fyrirtækisins við Kim. Fyrr í þessari viku varð Peter Harf ráðinn sem nýr framkvæmdastjóri fyrirtækisins en eftir þá ráðningu hækkaði verð á hlutabréfum í fyrirtækinu um 20%.

Forsvarsmenn Coty tóku þó fram að það sé alls ekki víst að samstarfið muni verða að veruleika og gáfu engar frekari upplýsingar í samtali við Reuters.