Rekstrarstjóri (e. chief operating officer) hjá svissneska bankanum Credit Suisse sagði af sér í dag vegna njósnaskandals. Tilkynnt var um uppsögnin þegar í ljós koma að öryggisráðgjafi sem tengdist málinu hafði framið sjálfsmorð. Financial Times greinir frá þessu.

Öryggisráðgjafinn hafði haft milligöngu á milli Credit Suisse og eftirlitsfyrirtækis sem fékk einkaspæjara til að njósna um fyrrum yfirmann hjá bankanum. Sjálfsmorðið hefur að sögn FT beint kastljósi fjölmiðla að bankanum sem eigi það erfiða verkefni fyrir höndum að verja orðstír sinn en málið er sagt það erfiðasta sem bankinn hafi glímt við í ára raðir.

Rekstrarstjórinn, Pierre-Olivier Bouée, sagði af sér eftir að stjórn bankans hafði verið gerð grein fyrir njósnastarfseminni sem hann hafði frumkvæðið að og beindist að fyrrum yfirmanni eignastýringar hjá Credit Suisse, Iqbal Khan. Urs Rohner, stjórnarformaður Credit Suisse, kom fram opinberlega í kjölfar uppsagnarinnar og fordæmdi verknaðinn; bað starfsfólk bankans, hluthafa, Khan og fjölskyldu hans, afsökunar.

Bouée hóf að njósna um Khan í síðasta mánuði eftir að Khan réð sig til bankans UBS, en Bouée óttaðist að hann myndi reyna að ráða fleiri starfsmenn Credit Suisse yfir til keppinautarins. Lögfræðistofan sem framkvæmt hefur sjálfstæða innanhúsrannsókn á málinu segir hins var í yfirlýsingu að engar vísbendingar hafi gefið til kynna að Khan hafi verið á hausaveiðum.

Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir Credit Suisse og hefur valdið titringi í svissneska bankaheiminum. Bæði stjórnarformaður og bankastjóri bankans hafa sætt mikilli gagnrýni og krafan um að þeir segi af sér verður æ háværari.

Financial Times ræðir við Harris Associates, stærsta hluthafa bankans, um málið. Hann telur ekki ástæðu til þess að fleiri yfirstjórnendur segi af sér, allavega á meðan ekki hafi verið sýnt fram á að lög hafi verið brotin. Stjórnendurnir séu mannlegir og hafi gert mistök. Markmiðið hafi verið að verja hagsmuni hluthafa og þeir hafi gengið of langt í þeim efnum. Það sé það versta sem hægt sé að segja um málið sem sakir standi.