Skóframleiðandinn Crocs tilkynnti á miðvikudag að félagið hygðist loka síðustu verksmiðjum sem það rekur, og hefur verið að loka verslunum. Margir skildu það sem svo að fyrirtækið væri að leggja upp laupana og skórnir að hætta í framleiðslu. Svo er þó ekki.

Fyrirtækið sá sig knúið til að gefa út yfirlýsingu í gær, fimmtudag, þess efnis að þótt það hygðist hætta rekstri eigin verksmiðja, væru nú þegar um 90% skóna framleiddir af verksmiðjum í eigu annarra fyrirtækja, sem skóframleiðandinn gerir samninga við.

Félagið hyggst nú færa sig alfarið yfir í það fyrirkomulag, og fetar þar með í fótspor margra stórra fatnaðarfyrirtækja. „Ég held að Nike eigi ekki eina verksmiðju.“ sagði Sam Poser, greiningaraðili, í samtali við CBS . „Ekkert þessara fyrirtækja á verksmiðjur. Það er ekki það sem þau gera.“

Auk þess að fullvissa áhyggjufulla unnendur gúmmískóna þekktu, tilkynnti Crocs að Carrie Teffner, fjármálastjóri félagsins, hefði sagt starfi sínu lausu og muni hætta hjá félaginu þann 1. apríl á næsta ári. Við henni tekur Anne Mehlman, sem áður var hjá Amazon, en hún hefur störf 24. ágúst næstkomandi.

Ákvörðunin virðist leggjast ágætlega í fjárfesta, en hlutabréf félagsins hafa hækkað um 43% það sem af er árinu, og þrefaldast frá því í apríl í fyrra.