Nýsköpunarverðlaun Íslands þetta árið féllu í skaut fyrirtækisins Curio. Verðlaunin voru afhent á Nýsköpunarþingi í gær.

Curio hannar og þróar fiskvinnsluvélar sem ætlað er að skila betri afurð og auka nýtingu botnfiskvinnslu við afhausun, flökun og roðflettingu. Langstærstur hluti vara fyrirtækisins hafa hingað til ratað á erlendan markað, kringum 85 prósent, og þá helst til Noregs, Bretlands, Bandaríkjanna og Póllands. Nú vinnur félagið að nýjum vinnslulínum fyrir lax og bleikju.

Fyrstu vélarnar voru framleiddar af félaginu Gullmolar ehf. árið 2007 en Curio var stofnað árið 2013 og tók yfir þróun og framleiðslu vélanna. Höfuðstöðvar þess eru í Hafnarfirði og Húsavík. Hjá félaginu starfa 49 manns en þar af eru 42 sem starfa á Íslandi.

„Curio hefur leitt öflugt þróunarstarf sem snýr að vinnslu sjávarafurða. Félagið var framan af ekki áberandi í nýsköpunarsamfélaginu en þróunarstarf félagsins hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. Félagið hlaut m.a. árið 2018 tveggja milljón evra styrk í nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins innan Horizon 2020 og styrk frá Tækniþróunarsjóði vorið 2019 fyrir nýrri tölvustýrðri klumbuskurðarvél. Það er mat dómnefndar að Curio hafi þróað framúrskarandi afurðir og leggi mikla áherslu á áframhaldandi þróun véla sem hafi alla burði til að ná árangri á markaði á næstu árum og sé vel að verðlaununum komið,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.

Nýsköpunarverðlaunin eru veitt árlega af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og hefur náð árangri á markaði.