Íslenska fyrirtækið D-Tech hefur fengið fjármögnun frá Nefco til að efla útflutning á vistvænni sótthreinsitækni fyrir matvælaiðnað. Sótthreinsitækni fyrirtækisins notar mun minna vatn og sótthreinsiefni en hefðbundnar aðferðir, að því er segir í fréttatilkynningu.

Guðmundur Sigþórsson, framkvæmdastjóri D-Tech, vildi ekki gefa upp fjárhæðina í samtali við Viðskiptablaðið en sagði að lánið væri mjög stórt miðað við efnahagsreikning fyrirtækisins. Á vefsíðu Nefco kemur fram að grænu lán stofnunarinnar séu á bilinu 100-500 þúsund evrur, eða á bilinu 15-75 milljónir króna og að gjalddaginn sé að hámarki eftir fimm ár.

Græn fjármögnun fjármálastofnunarinnar Nefco, sem stendur litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndunum til boða, gerir fyrirtækinu kleift að opna nýjar söluskrifstofur og efla framleiðslugetu í austur-Evrópu.

Hagnaður D-Tech var 12,9 milljónir króna árið 2020, samanborið við 19 milljónir árið áður, samkvæmt ársreikningi. Rekstrartekjur félagsins námu 92,2 milljónum króna í fyrra og lækkuðu um 2,3 milljónir milli ára. Eignir félagsins námu 72,6 milljónum króna í árslok 2020, þar af voru 49,6 milljónir króna í eigið fé og skuldir 23 milljónir króna.

Með dótturfélag í Póllandi

Helstu markaðir D-Tech eru Ísland og Pólland, en fyrirtækið er með dótturfélag í Póllandi. Alls starfa fjórtán manns hjá félaginu. Félagið ætlar nú að efla markaðssetningu á vistvænum sótthreinsikerfum sínum í Bretlandi og Litháen og stefnir einnig á aukin umsvif í austur-Evrópu og á Norðurlöndum.

„Það getur verið erfitt fyrir fyrirtæki af okkar stærðargráðu að fá bankafjármögnun. Fjármögnunin frá Nefco er okkur því mjög mikilvæg og gerir okkur kleift að nýta þau gríðarlegu tækifæri sem skapast hafa á erlendum mörkuðum vegna Covid,“ er haft eftir Guðmundi í fréttatilkynningu.

D-tech er í helmingseigu Ragnars Ólafssonar og eignarhaldsfélagið Eurolider, í eigu Önnu Josefin Jack, á hinn helminginn í fyrirtækinu.

Sótthreinsikerfið notar 90% minna vatn

D-Tech var stofnað árið 2014 og eru sótthreinsikerfi þess nú í notkun hjá öllum stærstu fiskvinnslufyrirtækjum á Íslandi og fjölda matvælafyrirtækja erlendis. Tæknin byggir á því að spreyja sótthreinsandi efnalausn inn í framleiðslurýmið með sérstöku úðakerfi. Þannig myndast þétt þokumistur sem sótthreinsar alla fleti og framleiðslubúnað og drepur bakteríur eins og listeríu og kampýlobakter.

„Aðferðin er mun umhverfisvænni en hefðbundnar sótthreinsiaðferðir í matvælaiðnaði. Kerfið okkar minnkar notkun á sótthreinsiefnum um 70-80% og vatnsnotkun um allt að 90%. Þar að auki styttir tæknin þrifatíma heilmikið, sem gerir það að verkum að verðmætur vinnslutími lengist,“ er haft eftir Guðmundi.

D-Tech er nú að ljúka vöruþróun á sótthreinsikerfi fyrir minni matvælafyrirtæki, ásamt nýrri tækni til sótthreinsunar farartækja sem flytja matvæli. Hin nýja tækni, D-Truck, minnkar verulega óþarfa akstur með tóma flutningavagna.

„Vitund fólks um sótthreinsun hefur aukist gríðarlega í heimsfaraldrinum og auk þess eru matvælafyrirtæki sífellt að verða meðvitaðri um umhverfissjónarmið í framleiðslunni,“ segir Guðmundur í lok tilkynningarinnar.