Landsréttur dæmdi á föstudaginn This is City Attractions B.V. í vil gegn Esju Attractions, móðurfélagi FlyOver Iceland, vegna samnings um uppbyggingar á flugupplifuninni. Esja þarf að greiða sem nemur 3,5% af tekjum vegna seldra miða í flugupplifuninni í 15 ár frá opnunardegi, samanber ákvæði í umræddum samningi.

Esja ber einnig að greiða This is City 300 þúsund evrur auk dráttarvaxta ásamt 2,5 milljónum króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

Deildu um skilyrði í samningnum

Hollenska félagið This is City gerði samstarfssamning við Esju um að aðstoða við uppbyggingu FlyOver Iceland. Í samningnum fólst meðal annars að ef öll skilyrði yrðu uppfyllt, m.a um að félagið lyki láns-og eignafjármögnun, fengi This is City hlutdeild í afkomu FlyOver Iceland auk greiðslu fyrir veitta aðstoð. Esja taldi ákvæði um árangur af framvindu verksins ekki hafa gengið eftir og því hafi samningurinn runnið út. This is City á um 2% hlut í Esju.

„Esja, móðurfélag FlyOver, telur það tiltölulega augljóst að sá árangur hafi ekki náðst. Það er meðal annars kveðið á um það í berum orðum að búið eigi að vera að fjármagna félagið að fullu, bæði eiginfjárfjármögnun og lánsfjármögnun. Það var ekki búið á þessum tíma. Það er bara staðreynd sem er mjög auðvelt að sýna fram á. Samningum við Arion banka um fjármögnun félagsins var lokið snemma á þessu ári,“ sagði Gunnar Jónsson, lögmaður Esju, við Viðskiptablaðið í október 2019.

Þóknun til This is City var ákveðin þannig að annars vegar skyldi félagið fá greidda mánaðarlega þóknun meðan samningurinn væri í gildi og hins vegar svokallaða hlutdeildarþóknun í 15 ár frá opnunardegi flugupplifunarinnar og skyldi hún vera 3,5% af tekjum af miðasölu.

Í málinu deildu félögin um hvort samningurinn hefði framlengst umfram fyrstu níu mánuðina og hvort ákvæði samningsins um hlutdeildarþóknun gilti óháð því hvort samningurinn hefði framlengst. This is City taldi líkur hefðu verið leiddar að því að fjármögnun verkefnisins hefði verið svo gott sem tryggð með kaupum kanadískrar fyrirtækjasamsteypu á 54,5% hlut í Esju, fimm mánuðum eftir að samningur aðila komst á.

Einnig lá fyrir að Esja greiddi This is City þóknunargreiðslur í þrjá mánuði eftir að níu mánaða samningstímanum lauk í samræmi við framlengingarákvæði samningsins og að í tölvuskeyti sem Esja sendi hollenska félaginu eftir að samningstímanum lauk hefði gildi samningsins ekki verið dregið í efa.

Með hliðsjón af framangreindu var talið að This is City hefði tekist sönnun um að samningurinn hefði framlengst samkvæmt ákvæðum þar um og því gilt í tvö ár og níu mánuði. Þar sem því var ekki mótmælt af hálfu Esju að This is City ætti í því tilviki rétt á hlutdeildarþóknuninni voru aðalkröfur hollenska félagsins um viðurkenningu á rétti til þóknunarinnar og greiðslu í samræmi við það teknar til greina af Landsrétti.