Tékkneska flugfélagið Czech Airline mun í vetur bjóða upp á daglegt flug frá Prag til Íslands með viðkomu á Kastrup í Danmörku. Þetta kemur fram á vefnum turisti.is en Czech Airline hefur síðustu sumur boðið upp á beint flug til Íslands frá Prag. Fyrsta Íslandsferðin í vetur verður farin í lok október nk..

Haft er eftir blaðafulltrúa á vef turisti.is að markmið Czech Airline með nýjungunni sé að auka þjónustuna á flugleiðinni milli Prag og Kaupmannahafnar en um leið halda tengingunni til Íslands opinni allt árið um kring. Eftir að hafa metið kostina þá hafi lausnin verið sú að sameina flug til beggja borga í einni ferð en farþegar geta valið hvort þeir fljúga héðan alla leið til Prag eða kaupi bara miða til Kaupmannahafnar.

,,Áætlunin gerir ráð fyrir daglegum brottförum frá Prag klukkan 18:05 og lent verður í Kaupmannahöfn áttatíu mínútum síðar. Eftir um 1,5 klukkutíma stopp í dönsku höfuðborginni er flogið áfram til Íslands og lent þar um hálf ellefu um kvöld. Brottför á Íslandi er svo á dagskrá klukkan hálf fimm að morgni og lent er í Prag rétt fyrir ellefu eftir stopp í Kaupmannahöfn. Þetta þýðir að þota tékkneska flugfélagsins og áhöfn stoppa hér á landi yfir nótt en hingað til hefur þess háttar ekki tíðkast meðal erlendra flugfélaga sem hingað fljúga.

Það er ljóst að með þessari nýjung þá gefst farþegum sem þurfa að ná tengiflugi frá Kaupmannahöfn ný valkostur. Fyrsta ferð dagsins á vegum Icelandair lendir nefnilega ekki nógu snemma fyrir aðal morguntraffíkin frá Kastrup en það mun þota Czech Airlines gera. Og þar sem tékkneska flugfélagið er hluti af Skyteam bandalaginu þá geta farþegar á einfaldan hátt bókað tengiflug áfram með fjölda flugfélaga,” segir á vefnum turisti.is.