Sveitarstjórnarkosningar verða haldnar 14. maí næstkomandi og hefur Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík ákveðið að gefa kost á sér. Hann upplýsti þetta á Rás 2 í morgun.

Dagur hefur setið í borgarstjórn í 20 ár. Frá árinu 2002 til 2006 var hann borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans en frá 2006 hefur hann verið setið í borgarstjórn fyrir Samfylkinguna. Hann var borgarstjóri í nokkra mánuði á árunum 2007 til 2008.

Árið 2010 myndaði Samfylkingin meirihluta með Besta flokknum og var Dagur formaður borgarráðs á árunum 2010 til 2014 en þá var Jón Gnarr borgarstjóri. Dagur tók síðan við sem borgarstjóri eftir kosningarnar 2014 þegar Samfylkingar myndaði meirihluta með Bjartri framtíð, VG og Pírötum.

Björt framtíð bauð ekki fram í kosningunum 2018 en eftir kosningarnar gekk Viðreisn inn í stjórnarsamstarfið og hélt Dagur áfram sem borgarstjóri þó Samfylkingin hafi tapað nokkru fylgi í þessum kosningum.