Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, gagnrýnir umfjöllun um flugvallarsvæði í Hvassahruni í tenglum við mögulegt gos á Reykjanesi, í færslu á Twitter í gærkvöldi.

Hann segir hraunrennslislíkön sýna að hraun geti runnið yfir Reykjanesbrautina og jafnvel Suðurstrandaveginn og þar með aftengt Keflavíkurflugvöllinn. Það næði hins vegar ekki að Hvassahrauni. Þrátt fyrir það hafi Vísir ákveðið að birta frétt með fyrirsögninni „Flugvallarsvæði í Hvassahrauni á hættusvæði“. Í þeirri frétt er er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra, að líklega kæmi til endurmats á flugvallarsvæðinu í Hvassahrauni ef umbrotin á Reykjanesi leiði til eldgoss.

Borgarstjórinn segir þó að skynsamlegt sé að fara yfir jarðfræðileg gögn um flugvallarstæðið í Hvassahrauni og hættumat á svæðinu í ljósi nýjustu atburða.

„Reykjanesið er allt á virku svæði en margt bendir til að Hvassahraunið sé einna ákjósanlegasta svæðið til flugvallargerðar, út frá eldvirkni og öðrum þáttum, á SV-horninu,“ skrifar Dagur í annari færslu og vitnar í skýrslu Kristján Sæmundssonar og Magnúsar Á. Sigurgeirssonar um flugvallarstæði með tilliti til sprunguvirkni og hraunrennslis frá árinu 2015.