Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur í meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar sagði Eyþór Arnalds oddvita Sjálfstæðismanna í borginni ekki eiga heima á fundi forystumanna í borginni með þingmönnum.

Hafði borgarstjórn boðað þingmenn borgarinnar á fund til sín í Höfða í tilefni kjördæmaviku en Fréttablaðið segir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi sagt við Eyþór að hann ætti ekki heima á fundinum þar sem þetta væri ekki frambjóðendafundur.

Eyþór hafði mætt til fundarins í boði Guðlaugar Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og þingmanns í borginni en Dagur rak hann á dyr á þeirri forsendu að hann væri hvorki þingmaður né enn í borgarstjórn. Hafði hann ætlað að sitjast gegnt Degi við langborð í Höfða, þar sem Dagur hafði ætlað sér sæti í öndvegi.

„Ég er nýr oddviti í þeim flokki sem er stærstur og þigg [boð utanríkisráðherra] strax. Ég tel það gott fyrir Reykvíkinga að þingmenn fái skýra og sterka rödd sem segir ríkinu að gleyma okkur ekki, um það snýst samtalið,“ segir Eyþór sem segir þetta í fyrsta sinn sem embættismaður borgarinnar vilji ekki ræða við sig.

„Þetta er mjög óvenjulegt því alls staðar sem ég kem þá taka forstöðumenn stofnana taka þeir vel á móti mér.“

Eyþór segir að Dagur hafi ekki viljað þiggja þessa aðstoð. „Þannig að ég kvaddi bara kaffiboðið og sagði við hann að það væri fínt þá að halda frambjóðendafund sem fyrst og að hann skyldi haldinn í Höfða.“