Verð hlutabréfa í Danske Bank hefur lækkað um 9,1% það sem af er degi vegna tilkynningar bankans um að hann afsali sér öllum þeim tekjum sem bankinn hefur fengið í gegnum peningaþvætti. Þetta kemur fram í frétt Financial Times .

Danske horfir fram á að starfsemi sín í Eistlandi verði rannsökuð frekar af dönskum yfirvöldum. Er talið að stór hluti af fjármagninu sem rann þar í gegn á árunum 2007 til 2015 eigi sér grunsamlegan uppruna og að bankinn hafi verið notaður til að þvo peninga.

Í frétt Financial Times er greint frá því að tekjur Danske af starfseminni í Eistlandi hafi numið 230 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 24,7 milljörðum íslenskra króna. Að sögn Danske verður öllum þeim tekjum bankans, sem teljast grunsamlegar, ráðstafað til samfélagslegra málefna.