Auðkýfingurinn Davíð Helgason er ekki lengur milljarðamæringur í Bandaríkjadölum talið ef marka má rauntímalista Forbes viðskiptamiðilsins. Skýrist það einkum af lækkun hlutabréfaverðs hugbúnaðarfyrirtækisins Unity.

Gengi Unity hefur fallið um meira en helming frá áramótum og stóð í 66,4 dölum á hlut við lokun markaða á föstudaginn. Dagslokagengi félagsins hefur aldrei verið lægra frá skráningu í kauphöll Nasdaq í New York í september 2020. Til samanburðar þá var útboðsgengi í frumútboði Unity 52 dalir á hlut.

Lækkun á gengi Unity er nokkuð í takt við þróun á hlutabréfaverði tæknifyrirtækja en Nasdaq-100 Technology Sector vísitalan hefur fallið um fjórðung frá áramótum. Auk þess hafði gengi Unity hækkað töluvert undir lok síðasta árs.

Sjá einnig: Davíð selt fyrir 20 milljarða

Um mitt síðasta ár hóf Davíð minnka við eignarhlut sinn í Unity. Eftir síðustu sölulotuna í byrjun mars 2022 þá hefur hann alls selt um 12% af hlut sínum í fyrirtækinu fyrir tæplega 20 milljarða króna. Söluverðið í síðustu viðskiptum Davíð var rétt yfir 100 dali á hlut.

Davíð á í dag um 9,15 milljónir að nafnverði í Unity sem er um 608 milljónir dala eða um 80 milljarðar króna að markaðsvirði.