Davíð Oddsson, ritstjóri, er ekki á förum frá Morgunblaðinu að sögn hans sjálfs og hann hefur ekkert hugsað um að hætta. Davíð fagnar sjötugsafmæli sínu í dag.

„Ég er sjö­tug­ur eins og fram hef­ur komið. Mogg­inn, hann er 105 ára og ekki hætti hann þegar hann varð sjö­tug­ur,“ sagði Davíð morgunþætti K100 í dag.

Reglur Árvakurs kveða á um að þegar menn ná þeim aldri skuli þeir láta af störfum. Forverar Davíðs þeir Styrmir Gunnarsson og Matthías Johannessen, hættu báðir sama ár og þeir urðu sjötugir. Matthías varð sjötugur í janúar árið 2000 og hætti í lok þess árs. Styrmir var sjötugur í mars árið 2008 og hætti störfum í júní sama ár.

Afmælisveisla Davíð til heiðurs mun fara fram í húsakynnum Morgunblaðsins að Hádegismóum á milli klukkan 16 til 18 í dag.