Efling hefur brugðist við yfirlýsingu frá Kristófer Júlíus Leifsson framkvæmdastjóra Eldum rétt ehf. og segir hann bregðast við skaðabótamáli fyrrum starfsmanna gegn félaginu með útursnúningi og rangfærslum.

„Ég get fullyrt fyrir hönd okkar hjá Eldum rétt að við tækjum aldrei þátt í því að koma illa fram við fólk og myndum heldur aldrei líta undan í aðstæðum þar sem slíkt væri látið viðgangast,“ segir Kristófer Júlíus í yfirlýsingu frá félaginu. „Við höfðum hreinlega ekki vitneskju um að slíkar aðstæður væru uppi og teljum rétt að þetta mál fari sína leið fyrir dómstólum.“

Um er að ræða kæru byggða á nýjum lögum um keðjuábyrgð fyrirtækja sem ráða til sín starfsmenn í gegnum starfsmannaleigur, en samkvæmt fréttatilkynningu Eldum rétt komu starfsmennirnir inn á álagstoppum í samtals fjóra daga á um mánaðartímabili í janúar og febrúar síðastliðnum.

Lengd starfstímans sagt óviðkomandi

Efling hefur nú falið lögfræðistofunni Rétti að sækja rétt mannanna gagnvart starfsmannaleigunni Menn í vinnu sem kölluð er alræmd í fréttatilkynningu félagsins, sem og fyrirtækjunum sem skiptu við hana, en um er að ræða þrjú fyrirtæki fyrir utan Eldum rétt.

Segir Efling að þrátt fyrir skamman starfstíma eigi undanþágur vegna lágmarkstímabils ekki við í tilfelli Eldum rétt, og tímabilið sagt málinu því óviðkomandi.

„Þrjú þessara fyrirtækja hófu umsvifalaust samtal við Eflingu og gengust við sinni lögbundnu ábyrgð, en Eldum rétt kaus að svara eftir dágóða bið með fremur harðorðu bréfi þar sem allri ábyrgð var vísað á bug, bent á ábyrgðarsjóð launa og mögulegt yfirvofandi gjaldþrot Menn í vinnu ehf.,“ segir í tilkynningu verkalýðsfélagsins.

„Allt var gert til þess að túlka skyldur Eldum rétt á sem þrengstan hátt. Kristófer reynir nú að drepa málinu á dreif með að tala um að vandamálið hafi verið upphæðirnar, en þær voru ekki gerðar að umræðuefni í fyrrnefndu bréfi, og virðist einfaldlega vera viðleitni til að grugga vatnið nú þegar lögsóknin er til umtals í fjölmiðlum.“

Segja Rúmenunum sjálfum kennt um

Segir í tilkynningu Eflingar að það veki jafnframt nokkra furðu að Eldum rétt sýni þessa hörku í ljósi þeirra aðstæðna sem starfsmennirnir bjuggu við, en jafnframt er gagnrýnt að fyrirtækið skuli gera Eflingu ábyrgt fyrir því að ekki hafi átt sér samtal milli verkalýðsfélagsins og fyrirtækisins.

Vilji til slíks samtals hafi þó ekki verið að finna í eindreginni höfnun fyrirtækisins á bréfi Eflingar. „Ennfremur er undarlegt að í höfnunarbréfi Eldum rétt virðist Rúmenunum sjálfum vera kennt um það agandi umhverfi sem Menn í vinnu ehf héldu þeim í, með þeim rökum að ráðningarsamningar sem þeir undirrituðu hafi leyft það,“ segir í yfirlýsingu Eflingar.

„Ákvæði þeirra samninga eru í meira lagi vafasöm, enda er vinnuveitandanum þar gefið einhliða vald til að skuldfæra allt frá húsaleigu til líkamsræktarkorts af launum, fyrirfram. Það vald var svo notað í febrúar með grimmilegum hætti, þegar starfsmönnunum var fyrirvaralaust fleygt úr híbýlum sínum peningalausum, með vísun í fyrrnefndan samning.

Að stjórnendur Eldum rétt hafi kynnt sér samninginn og álitið hann eðlilegan kemur á óvart, ekki síst í ljósi sögu starfsmannaleigunnar. Efling skorar á atvinnurekendur að skipta ekki við starfsmannaleigur, og að reyna ekki að drepa á dreif lögbundinni ábyrgð sinni í slíkum viðskiptum.“

Ábyrgð fyrirtækisins nái ekki til fyrirframgreiddra launa og útlagðs kostnaðar

Í tilkynningu Eldum rétt undirritaðri af Kristófer Júlíusi segir að ágreiningurinn snúi aðallega að því hvort starfsmannaleigunni hafi verið heimilt að draga frá launum starfsmannanna fyrirframgreidd laun og útlagðan kostnað einkum vegna húsnæðis,
síma, líkamsræktar og ferðalaga.

„Ekki er deilt um að starfsmennirnir nutu allra lágmarkskjara á þeim tíma. Ábyrgð Eldum rétt ehf. nær samkvæmt lögum ekki til þess að greiða fyrirframgreidd laun og útlagðan kostnað fyrir þessa starfsmenn,“ segir í tilkynningu Eldum rétt, en um það muni þó dómstólar fjalla fyrst félagið sé, að eigin mati, að ósekju dregið inn í dómsmál vegna þessa.

Eldum rétt er rúmlega fimm ára gamalt fyrirtæki og meðalstarfsaldur starfsmanna eru tæp þrjú ár, segir jafnframt í tilkynningunni.

„Ákveðið var að nýta þjónustu Menn í vinnu ehf. til að létta álagi á fasta starfsmenn Eldum rétt og jafna út álagspunkta, en ekki til að fara illa með fólk. Forsvarsmenn Eldum rétt ehf. taka fulla ábyrgð á því að hafa nýtt sér þjónustu Menn í vinnu ehf. en harma ef starfsmennirnir fjórir voru beittir órétti af hálfu starfsmannaleigunnar.“