Hagnaður byggingaverktakans Jáverk ehf. nam 386 milljónum króna á síðasta rekstrarári og dróst saman um 164 milljónir króna milli ára. Tekjur jukust um tæplega hálfan milljarð, námu 5.685 milljónum en gjöld hækkuðu á móti um 663 milljónir og námu tæplega 5,2 milljörðum.

Eignir félagsins stóðu í 3,9 milljörðum í árslok en þar af eru skammtímakröfur á tengda aðila tæpar 1.735 milljónir. Sú hæsta nemur 1.260 milljónum og er á móðurfélagið GG ehf. Skuldir námu 1,6 milljörðum, hækkuðu um tæpar 700 milljónir milli ára, og eru að nær öllu leyti skammtímaskuldbindingar.

Óráðstafað eigið fé nam 2.255 milljónum og virðist hagnaði ársins hafa verið ráðstafað til hækkunar á því. Ákvörðunar um arðgreiðslu til móðurfélagsins er ekki getið í skýrslu stjórnar og þá er ekki að sjá að arður hafi verið greiddur út vegna ársins 2018. Fjöldi ársverka var 75 og fækkaði þeim um tvö. Alls greiddi félagið 780 milljónir í laun, launatengd gjöld og annan kostnað vegna starfsmanna og var þar á ferð hækkun um 21 milljón.

Í ársreikningi félagsins er deilna um lokauppgjör í „einu verkefni“ getið. Þar hefur Jáverk stefnt verkkaupa sem á móti hefur gagnstefnt vegna mögulegs galla. Stjórnendur Jáverks áætla að tekjur vegna lokauppgjörs verði hærri en mögulegar bætur.