ALMC Holding ehf., áður LS Retail Holding ehf. og þar áður StraumurBurðarás, náði í lok síðasta árs og byrjun þessa að sætta ýmis dómsmál sem höfðuð höfðu verið gegn því í tengslum við sölu á hlut félagsins í LS Retail árið 2015. Af ársreikningi félagsins má reikna að félagið hafi þurft að reiða fram ríflega hálfan milljarð króna til að leiða málin til lykta.

Rót dómsmálanna lá í fyrrnefndri sölu á LS Retail en kaupandi var Ancorage Capital Group og kaupverðið 17,6 milljónir evra. Nokkur hópur starfsmanna átti kauprétt að hlutum í LS Retail og í kjölfar viðskiptanna bauðst ALMC til að gera kaupréttina upp með eingreiðslu sem tæki mið af söluverði félagsins.

Starfsmenn tóku því ekki vel og töldu sig hlunnfarna. Aðrir aðilar hefðu sýnt félaginu áhuga og verið tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir það. Raunar hefðu borist tilboð sem hefðu verið tvöfalt hærri en endanlegt söluverð og mögulegt virði enn hærra. Í því hefði falist ávinningur fyrir ALMC sem fólst í því að sölsa undir sig hluta af virði kaupréttanna.

Síðar sama haust höfðuðu umræddir starfsmenn félagsins mál á hendur ALMC til heimtu á réttu virði fyrir kauprétti sína í formi skaðabóta. Þeim dómsmálum var vísað frá dómi þar sem samkvæmt samningum um kaupréttina, svo og hluthafasamkomulagi, ætti ágreiningur sem reis af þeim að heyra undir gerðardóm.

Auk þess að málið væri lagt fyrir gerðardóm til úrlausnar höfðuðu kaupréttarhafar mál á hendur sex stjórnarmönnum ALMC hf. og LS Retail Holding ehf. og kröfðust viðurkenningar á skaðabótaskyldu þeirra vegna tjóns sem þau urðu fyrir við sölu LS Retail. Með úrskurði héraðsdóms vorið 2019 var málinu vísað frá þar sem dómurinn mat það svo að sá ágreiningur heyrði einnig undir gerðardóm. Landsréttur felldi þann úrskurð aftur á móti úr gildi og vísaði málinu heim í hérað til efnismeðferðar.

Samkvæmt úrskurði Landsréttar voru dómkvaddir matsmenn fyrir gerðardómi til að leggja mat á virði LS Retail á söludegi. Samkvæmt matsgerðinni var raunverulegt virði félagsins umtalsvert hærra en kveðið var á um í kaupsamningnum. Yfirmats var óskað en niðurstöðu þess er ekki getið í úrskurðinum.

Eðli málsins samkvæmt hefur reynst erfitt að fylgjast með meðferð málsins fyrir gerðardóminum. Úrskurðir í málunum voru kveðnir upp vorið 2020 en heimildir blaðsins herma að niðurstaða þeirra hafi verið á þann veg að saknæmri háttsemi hafi ekki verið til að dreifa í aðdraganda sölunnar þótt virði félagsins kunni að hafa verið meira. Með öðrum orðum þá er ekki saknæmt að taka viðskiptaákvarðanir sem síðar reynast lélegar.

Af rekstrarreikningi ALMC Holding má sjá að laun og launatengd gjöld hafa hækkað um tæplega 348 milljónir króna milli ára. Leiða má að því líkur að þar séu umræddir kaupréttir á ferð en þeir eru oftar en ekki meðhöndlaðir á þann veg. Því til viðbótar eru færð til gjalda 193 milljónir í skaðabætur en þar eru sennilega á ferð dráttarvextir sem féllu á félagið sökum þess hve uppgjörið dróst.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .