„Bankinn er verðminni núna en þegar við tókum við honum,“ sagði Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata um Íslandsbanka í Sprengisandi fyrr í dag, og vísaði til ummæla Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra sama efnis á Alþingi.

Uppfært 3.5.2022: Með ummælunum átti Björn við það hvað bankinn væri líklegur til að skila ríkinu hárri fjárhæð þegar upp er staðið, ekki heildarmarkaðsvirði. Ríkið fékk 55,3 milljarða króna fyrir 35% hlut á genginu 79 krónur á hlut í frumútboði við skráningu í fyrrasumar og 52,7 milljarða fyrir 22,5% hlut á genginu 117 nú í mars, og hefur því alls fengið 108 milljarða fyrir 57,5%.

Miðað við núverandi markaðsgengi er sá 42,5% hlutur sem eftir er 105,7 milljarða króna virði, en væri hann seldur með sama fyrirkomulagi og í mars á sama afslætti fengjust fyrir hann 101,4 milljarðar. Alls hefði ríkið þá fengið 209,4 milljarða króna fyrir bankann í heild.

Sé eigið fé bankans við afhendingu til ríkisins leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum síðan nemur það vel á þriðja hundrað milljörðum, og var aðeins milljarði lægra að núvirði en markaðsvirði bankans í dag mánuði fyrir afhendinguna árið 2016. Þá eru hinsvegar ótaldir um 72 milljarðar króna sem bankinn hefur greitt eiganda sínum, íslenska ríkinu, síðan þá.

Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins var þar mætt með Birni og hváði við við ummælin. Björn hélt áfram: „Hann var verðmetinn á 185 milljarða þegar við tókum við honum. Verðlagsuppfært er það hærri upphæð heldur en ef við uppreiknum miðað við söluverðið sem var núna.“

Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi var einnig fullur efasemda og sagði þetta tæplega geta staðist. Hann spurði þá hvort Björn ætti við með því að vega eigið fé á móti söluverði mætti komast að þeirri niðurstöðu að meira hefði fengist fyrir bankann þá en nú.

Björn Leví endurtók þá að viðskiptaráðherra hefði fullyrt þetta á Alþingi, en Kristján gaf lítið fyrir það: „Já það er alveg sama þó hún hafi sagt þetta, þetta er ekki rétt. Bankinn er auðvitað miklu verðmætari í dag heldur en þegar við tókum við honum.“

Björn Leví útlistaði loks málið nánar eftir að Kristján endurtók spurninguna. „Það er búið að leggja mat á það hvers virði bankinn var til þess að dekka allar kröfurnar fram og til baka. Við hefðum getað selt allan bankann í þessu ferli, það voru 151 milljarður sem komu inn í tilboð, og við vorum búin að selja fyrir þessa 50 áður, þetta voru 200 milljarðar. 185 milljarðar á verðlagi ársins 2014-2015 eru hærri upphæð heldur en 200 milljarðar í dag, við skulum bara hafa það algerlega á hreinu.“

Verðlagsleiðrétt eigið fé við afhendingu yfir 200 milljarðar í dag
95% hlutur skilanefndar Glitnis í Íslandsbanka var formlega afhentur íslenska ríkinu þann 30. janúar 2016. Samkvæmt ársreikningi Íslandsbanka frá árinu 2016 var bókfært eigið fé 198 milljarðar króna í upphafi þess árs, en hafði lækkað í 175 milljarða í árslok.

Í minnisblaði Bankasýslunnar frá 2018 um arðsemi ríkisbankanna segir:

„Er ljóst að arðsemi eigin fjár banka hefur griðarleg áhrif á verðmat hlutafjár þeirra: Markaðsvirði hlutafjár banka með 6,0% arðsemi væri einungis 0,53x af innra virði, á meðan markaðsvirði hlutfjár banka með 10,0% arðsemi næmi 0,98x af innra virði.“

Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka hafði numið 10,8% árið 2015 og varð 10,2% árið 2016. Miðað við ofangreint viðmið Bankasýslunnar ætti bankinn því að hafa verið metinn á rétt um það bil andvirði bókfærðs eigin fjár.

185 milljarðar króna á verðlagi janúar 2016 jafngilda 231 milljarði króna í dag. 175 milljarðar þá væru 219 í dag en 198 þá voru ígildi 248 í dag.

Við lokun markaða á föstudag stóð gengi hlutabréfa Íslandsbanka í 124,6 krónum á hlut, og heildarmarkaðsvirði í 249 milljörðum króna. Sé miðað við útboðsgengið 117 frá í mars væri bankinn 234 milljarða króna virði.