Skaðabótamáli Arnarlóns ehf. gegn Dalabyggð, vegna riftunar á kauptilboði í Laugar í Sælingsdal, var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands. Félagið, sem er í eigu Þórhalls Arnar Hinrikssonar og Helgu Óskar Hannesdóttur, krafðist 17 milljóna króna í bætur vegna útlagðs kostnaðar að viðbættum bótum vegna hagnaðarmissis vegna riftunarinnar sem eftir ætti að meta af matsmanni.

Tilboðið var gert í lok árs 2017 og átti kaupverð að nema 460 milljónum króna. Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti tilboðið en með ýmsum fyrirvörum. Meðal annars var kveðið á um að veðskuldabréf til sveitarfélagsins yrðu tryggð á fyrsta og öðrum veðrétti og að vatnsverndarsvæði yrði skipt frá jörðinni og yrði áfram í eigu sveitarfélagsins. Í apríl 2018 kom í ljós að Byggðastofnun gat aðeins lánað 200 milljónir króna til kaupanna og kom Kvika inn með 50 milljónir króna sem upp á vantaði. Þau skuldabréf myndu þá lenda á fyrsta og öðrum veðrétti og skuldabréf sveitarfélagsins á þeim þriðja.

Sveitarstjórn sleit því viðræðum í apríl 2018 vegna ósættis um veðröð skuldabréfa. Hluti Lauga var í eigu félagsins Dalagisting ehf., en Dalabyggð á 72% hlut í félaginu, en því félagi var ekki stefnt í málinu. Taldi dómurinn að borið hefði að stefna því einnig við hlið sveitarfélagsins í málinu, málinu var vísað frá og Arnarlón dæmt til að greiða 1,4 milljónir í málskostnað.