Hæstiréttur sýknaði í dag Vörð tryggingar hf. af kröfu fasteignasala um 4,4 milljónir úr starfsábyrgðartryggingu sinni hjá félaginu. Ástæðan var sú að samningur sá, er tjónið leiddi af, var ekki samningur um fasteignakaup heldur verksamningur.

Forsaga málsins er sú að fasteignasalinn var með dómi Hæstaréttar árið 2016 dæmdur til að greiða kaupendum fasteignar 4,4 milljónir króna í sameiningu við tvo aðra. Um var að ræða byggingu einbýlishúss í Eyjafjarðarsveit og annaðist fasteignasalinn skjalagerð við kaupin. Félagið sem átti að sjá um að reisa húsið fór í þrot og samkomulagið fór út um þúfur. Meðal annars var samningnum breytt einhliða af seljanda áður en hann var undirritaður.

Kaupendur hússins kröfðust þess að umræddir aðilar, þar á meðal fasteignasalinn, yrðu dæmd til að endurgreiða þeim það sem þau höfðu greitt inn á samkomulagið og var fallist á það í héraði. Dómurinn var síðan staðfestur í Hæstarétti með vísan tilforsenda hans.

Í fyrra málinu byggði fasteignasalinn á því að umræddur samningur hefði ekki verið samningur um fasteignakaup heldur verksamningur. Dómurinn féllst á það mat en honum var metið til gáleysis að hafa leyft því að viðgangast að seljandi hafi breytt samningnum einhliða áður en til undirritunar kom. Það hefði leitt til þess að ekki komst samningur á og var hann talinn hafa bakað sér bótaskyldu eftir almennum reglum um skaðabætur.

Í síðara málinu krafðist fasteignasalinn að vátryggingafélag sitt, sem sá um lögbundna starfsábyrgðartryggingu hans, myndi dekka tjónið sem af hlaust. Í dómi Hæstaréttar nú var á það bent að í fyrra málinu hefði fasteignasalinn byggt vörn sína á því að um verksamning hafi verið að ræða.

„Sá málatilbúnaður [fasteignasalans] fól í sér yfirlýsingu fyrir dómi um ráðstöfun á sakarefni í því máli og bann hann þar eftir reglum um gildi loforða,“ segir í dómnum. Hafði það skuldbindandi gildi gegn aðilum þess máls en ekki gagnvart vátryggingafélaginu þó að um þversögn væri að ræða.

Í kjölfarið benti Hæstiréttur á að hinn fyrri dómur hefði fullt sönnunargildi um atvik þar til hið gagnstæða væri sannað. Sú sönnun hefði ekki tekist í málinu nú og var áfram byggt á því að um verksamning væri að ræða.

Taldi Hæstiréttur að fasteignasali, sem hlotið hefði löggildingu til starfa meðal annars á grundvelli menntunar sinnar, gæti skoðast sem sérfræðingur um kaup, sölu og skipti á fasteignum, þar á meðal um gerð samninga um slíkar ráðstafanir, en á þeim grunni einum gæti hann á hinn bóginn ekki talist sérfræðingur um viðskipti eða skjalagerð á óskyldum sviðum. Skilmálar ábyrgðartryggingarinnar tóku aðeins til bótaskyldu sem félli á vátryggingartaka í störfum hans sem fasteignasali. Var tryggingafélagið því sýknað þar sem ekki var um samning við fasteignakaup að ræða.