Aðeins fáeinum klukkustundum eftir að róttæk endurskipulagning á starfsemi Deutsche Bank kynnt um helgina voru uppsagnarbréf farin að berast til starfsfólks bankans. Samkvæmt áætlun bankans verður starfsfólki bankans fækkað um 18.000 í endurskipulagningunni og í morgun (mánudag) var fjölmörgum verðbréfamiðlurum bankans í Tókýó og víðar í Asíu sagt upp störfum, að því er Financial Times greinir frá.

Endurskipulagningin er sögð viðamesta breyting á starfsemi bankans í tvo áratugi eða frá því að bankinn ákvað að stefna að því að komast í fremstu röð fjármálafyrirtækja á Wall Street. Christian Swing, bankastjóri Deutsche, gaf það markmið upp á bátinn á síðastliðinn sunnudag þegar hann tilkynnti að bankinn myndi hætta allri miðlun hlutabréfa sem rekin hafi verið með tapi og draga verulega úr starfsemi bankans á markaði með skuldabréf.

Financial Time segir uppsögn 18.000 starfsmanna Deutsche vera stærstu hópuppsögn í bankageiranum síðan 26.000 bankastarfsmenn misstu vinnuna þegar fjárfestingarbankinn Lehmann varð gjaldþrota árið 2008. Uppsagnir sem þessar geti verið ákaflega óvægar til að mynda hafi 10.000 starfsmenn bankans UBS ekki verið kunnugt um að bankinn hygðist fækka starfsfólki fyrr en uppsagnarbréf fóru að berast og fólki var gert að yfirgefa skrifstofurnar samdægurs.