Walt Disney Company hefur tilkynnt um kaup félagsins á tilteknum eignum 21st Century Fox fyrir 52,4 milljarði dala en það samsvarar 5.727 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins. Markmið Disney með kaupunum er að hraða á stækkun sinni þegar kemur að streymisþjónustu og sjónvarpi.

Auk þess að greiða 52,4 milljarða mun Disney einnig taka yfir 13,7 milljarða af skuldum 21st Century Fox en samningurinn er verðmetinn á 66,1 milljarð dala í heildina.

Kaupin innihalda kvikmynda- og sjónvarpsver Twentieth Century Fox og alþjóðlegar sjónvarpsstöðvar félagsins. Eftir munu standa bandarískar sjónvarpsstöðvar Fox í sérstöku félagi.

Hluthafar Fox munu fá í sinn hlut 0,2745 hluta í Disney fyrir hvern hlut sinn í Fox en stjórnir beggja fyrirtækja hafa samþykkt samninginn.