Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að Valitor þurfi að greiða félögunum Sunshine Press Productions og Datacell samtals 1,2 milljarða króna skaðabætur er sögð sæta furðu í fréttatilkynningu félagsins.

Eins og fram kom í fréttum í dag snýst málið um lokun greiðslugáttar til söfnunar á styrkjum til Wikileaks, daginn eftir að söfnunin hófst, en Sunshine Press Productions fær 1.140 milljónir í bætur, en Datacell fær 60 milljónir króna.

„Niðurstaða dómstólsins sætir furðu, sérstaklega varðandi SPP sem aldrei hefur átt í neinu viðskiptasambandi við Valitor. Auk þess hefur SPP aldrei haft nema hverfandi tekjur en gerði engu að síður margra milljarða dómkröfur á hendur fyrirtækinu,“ segir í tilkynningunni.

„Valitor hefur frá upphafi bent á að enginn grundvöllur sé fyrir kröfugerð SPP en meirihluti héraðsdóms kemst að annarri niðurstöðu í dag. Hins vegar skilaði einn þriggja dómara séráliti og vildi sýkna Valitor alfarið enda hafi ekkert tjón verið sannað. Valitor er að fara yfir dómsniðurstöðuna og mun væntanlega áfrýja málinu til Landsréttar.“

Jafnframt tekur félagið fram að niðurstaða dómstólsins hafi engin áhrif á rekstrarhæfi Valitor né þjónustu við viðskiptavini félagsins og aðfjárhagsleg staða þess sé áfram sterk. Fréttatilkynningunni líkur loks með áréttingunni: „Arion banki, eigandi Valitor, er fjárhagslegur bakhjarl félagsins í þessu máli.“