S málánafyrirtækjum var heimilt að semja svo um að dönsk lög myndu gilda um slíka samninga sem gerðir voru hér á landi. Þetta felst í niðurstöðu nýlegs dóms Héraðsdóms Reykjavíkur, sem felldi með því úr gildi ákvörðun áfrýjunarnefndar neytendamála og Neytendastofu.

Ekki þarf að hafa mörg orð um það að starfsemi smálánafyrirtækja hefur verið nokkuð umdeild í gegnum tíðina og þau verið gagnrýnd fyrir háan kostnað sem lánunum fylgir. Eitt slíkt félag var hið danska eCommerce 2020, en félagið keypti árið 2018 Econtent ehf., sem átti vörumerkin Hraðpeninga, 1909, Smálán og Múlalán. Starfsemi félagsins fór öll fram í gegnum netið og kom fram í lánasamningum félagsins að um þá giltu dönsk lög í einu og öllu. Sá munur er á íslenskum og dönskum lögum um neytendalán að þau síðarnefndu setja ekki sama þak á þann kostnað sem lán má bera á einu ári.

Árið 2019 tók Neytendastofa mál félagsins til skoðunar og taldi að þessi hagan mála gengi ekki upp. Ekki væri hægt að semja sig framhjá laganna bókstaf með þessum hætti. Ákvörðun stjórnvaldsins var síðan kærð til áfrýjunarnefndar neytendamála, sem staðfesti hana. Málið nú var höfðað til að fá hana ógilta með dómi.

Dómur í málinu er nokkuð skemmtileg lesning, en í málinu var að engu leyti deilt um atvik og þrætueplið því hrein lagatúlkun. Meginregla er í íslenskum rétti að mönnum er frjálst að semja um flest, með þeirri undantekningu að ekki er hægt að semja sig fram hjá ófrávíkjanlegum lögum. Í lögum um lagaskil á sviði samningsréttar er meðal annars kveðið á um að ekki megi með samningum takmarka rétt neytanda, að tilteknum skilyrðum, í því landi sem hann býr ef umræddur samningur varðar afhendingu á vörum eða þjónustu eða samningi um lán til að fjármagna kaupin.

Óréttmæt gagnrýni um ólögmæt lán

„Dómurinn felur í sér staðfestingu á því að eftirlitsyfirvöld teygðu sig of langt í að takmarka lánastarfsemi eCommerce 2020 ApS gagnvart íslenskum neytendum. Það er ánægjulegt að fá það staðfest fyrir dómi, en nú eru tvö ár liðin frá því að þetta mál hófst sem stjórnsýslumál. Á meðan hefur félagið legið undir þungri gagnrýni, sem átti ekki rétt á sér, um að hafa veitt ólögmæt lán,“ segir lögmaðurinn Ingvar Smári Birgisson við Viðskiptablaðið, en hann flutti málið fyrir hönd eCommerce.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .