Bandaríska hlutabréfavísitalan Dow Jones lækkaði um 1.175 stig eða 4,6% í dag. Er þetta mesta lækkun vísitölunnar á einum degi síðan í september árið 2008 og mesta lækkun vísitölunnar í stigum talið frá upphafi.

S&P 500 hlutabréfavísitalan lækkaði einnig í dag, eða um 4,1%, en svo mikið hefur vísitalan ekki lækkað á einum degi síðan í ágúst árið 2011.

Samkvæmt frétt CNBC greip ótti um sig á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag, einkum vegna hratt hækkandi vaxta á markaði frá því í síðustu viku sem og væntinga um að stýrivextir komi til með að hækka fremur hratt á næstunni.

Lækkunin á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag sem og síðastliðinn föstudag markar ákveðinn viðsnúning í verðlagningu bandaríska hlutabréfamarkaðarins. Markaðurinn hefur verið í hækkunarhrinu frá því snemma í nóvember 2016, eða um svipað leyti og Donald Trump var kjörinn Bandaríkjaforseti. Á síðasta ári hækkaði Dow Jones vísitalan til að mynda um rúmlega 25% og S&P vísitalan hækkaði um rúmlega 17%.

Óróleikinn vestanhafs smitaðist yfir á alþjóðlega hlutabréfamarkaði í dag. Nasdaq vísitalan lækkaði um 3,8% og FTSE vísitalan lækkaði um 1,5%. Mögulega hefur lækkunin einnig smitast yfir á íslenska hlutabréfamarkaðinn, en Úrvalsvísitalan (OMXI8) lækkaði um 1,5% í dag.