Síðustu fimm árin hafa Kynnisferðir fjárfest fyrir meira en tíu milljarða króna í rekstrinum, þar af fyrir 6,5 milljarða á síðustu tveimur árum. Félagið keypti í fyrra fasteign í Klettagörðum ásamt því að 40 strætisvagnar voru keyptir, auk fjárfestinga í rútum og bílaleigubílum.

„Við höfum náð ágætis arðsemi á fjármagnið,“ segir Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða í samtali við Morgunblaðið.

„Árið 2016 var okkur erfitt vegna mikilla fjárfestinga, styrkingar krónu og launahækkana og ég reikna með að árið 2017 geti orðið strembið. Þess vegna hefur verið ákveðið að draga úr fjárfestingu á næstu misserum, stíga varlega til jarðar í þróunarverkefnum og fara sveigjanlegri leiðir er varðar fjárfestingu og mannahald. Eins og sakir standa eigum við allt núna: fasteignina, rúturnar og bílana.“

Í nýjasta ársreikningi félagsins, frá árinu 2015, kemur fram að tekjurnar hafi aukist um 28% á milli ára og náð sex milljörðum króna, meðan hagnaðurinn hafi aukist um 18% í 500 milljónir króna. Í fyrra var veltan að sögn Kristjáns ríflega sjö milljarðar og fyrirtækið hafi vaxið að meðaltali um fimmtung á ári frá því að ferðamannastraumurinn hófst hingað til lands fyrir alvöru.